Grýlukerti skapa hættu víða

Víða um bæinn hanga löng grýlukerti og skapa hættu fyrir gangandi vegfarendur, íbúa og gesti. Valdi grýlukertin slysi bera húseigendur alla ábyrgð og því mikilvægt að hreinsa vel til og gæta þess að snjór, klaki og grýlukerti skaði ekki fólk og eignir.  

Valþór Brynjarsson verkefnisstjóri hjá Fasteignum Akureyrarbæjar sagði að rekstraraðilar á fasteignum bæjarins fengju viðvaranir frá þeim ásamt því að þeir aðstoðuðu eftir fremsta megni. Í sumum tilfellum fara þjónustufulltrúar og aðstoða fólk eða leigja þriðja aðila t.d. kranabíla til að brjóta klakann niður.

Gunnþór Hákonarson hjá Framkvæmdamiðstöðinni sagði þá til dæmis stundum þurfa að girða af í miðbænum til að hindra gangandi umferð og bíla undir hættulegum grýlukertum og snjóhengjum. Bæjarbúar eru því hvattir til að fara vel yfir húsþök og gæta þess að fjarlægja grýlukerti, klaka og snjó eftir því sem kostur er svo hætta skapist ekki fyrir menn og þeirra vélfáka.

Nýjast