Grunur um eld á sveitabæ í Arnarneshreppi

Rétt eftir miðnætti í nótt barst Slökkviliðinu á Akureyri tilkynning um mikinn eld við bæ í Arnarneshreppi norðan Akureyrar.  Vegfarandi tilkynnti um brunann en gat ekki séð hvort hann var í íbúðar- eða útihúsum.  

Slökkviliðið hafði mikinn viðbúnað, fór af stað með 3 dælubíla með 6 mönnum og um 19 tonn af vatni meðferðis.  Ennfremur var kallaður út viðbótarmannskapur til að manna slökkvistöð og vera tilbúinn til aðstoðar ef þyrfti. Þegar lögregla kom á staðinn kom í ljós að ábúandi var að brenna rusli og taldi sig hafa leyfi til brunans.  Það leyfi hafði hins vegar ekki borist slökkviliði né vakthafandi lögreglu og verður það mál kannað nánar.  Útkall sem þetta kostar talsvert fé og mikilvægt að ekki sé verið að stefna útkallsliði slökkviliðs að óþörfu í slíkt, segir á vef slökkviliðsins.
Þetta er ekki fyrsta útkallið af þessu tagi.  Það getur ekki verið eðlilegt að ábúendur til sveita losi sig við rusl eða annan úrgang með brennslu á víðavangi.  Slíkt veldur ætíð hættu á alvöru eldsvoðum og óþarfa útköllum slökkviliðs.  Í þessu tilfelli var  vindur af suðri og í slíku veðri er ávallt meiri hætta á útbreiðslu elds.  Ennfremur má spyrja hvort eðlilegt sé að standa að slíku um miðja nótt á dimmasta tíma ársins, segir ennfremur á vef slökkviliðsins.

Nýjast