Samkvæmt gögnum frá Seðlabanka Íslands voru um 42% heimila með bága eða neikvæða eiginfjárstöðu um síðustu áramót. Allt bendir til þess að þessi þróun muni halda áfram nema gripið verði þegar í stað til viðeigandi ráðstafana til að forða þúsundum fjölskyldna frá miklum erfiðleikum. Framsýn kallar eftir tafarlausum almennum leiðréttingum á gengis- og verðtryggðum lánum heimilanna. Það er skylda stjórnvalda að standa vörð um grunneiningar samfélagsins sem eru heimilin í landinu. Brettum upp ermar og hefjum uppbyggingarstarf í stað þess að tala endalaust um mikilvægi aðgerða án efnda. Við annað verður ekki unað að mati Framsýnar- stéttarfélags.