Gríðarlega ósanngjarnt tap hjá Þór/KA

Sameiginlegt kvennalið Þórs/KA mætti í gærkvöld Keflavík í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu. Keflvíkingar höfðu mjög ósanngjarnan 2-1 sigur með sigurmarki á lokasekúndum leiksins.

Þórs/KA stelpur voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en áttu í vandræðum með að skapa sér opin færi, nóg var hins vegar af hálffærum. Þær Arna Sif Ásgrímsdóttir, Rakel Óla Sigmundsdóttir og Rakel Hönnudóttir áttu ágætis tækifæri áður en Ivana Ivanovic skoraði stórglæsilegt mark með skoti utarlega úr teignum.

Seinni hálfleikur var nánast eins, Þór/KA með tögl og hagldir í leiknum og mun hættulegri upp við mark andstæðinganna. Eitthvað stress virðist þó vera að koma í veg fyrir að þær nýti færin betur en raun ber vitni því að þegar í færin kom vantaði alla yfirvegun. Margar góðar sóknir fóru forgörðum með skotum sem ýmist fóru framhjá markinu eða beint á markvörð Keflavíkur. Hinum megin á vellinum voru Keflvíkingar hins vegar lítið hættulegir og þess vegna kom það eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar þær skoruðu mark upp úr nánast engu. Þær tóku þá stutt horn og sendu fastan bolta utan af kanti sem endaði efst í markhorninu hjá Þór/KA. Stuttu síðar fengu þær svo aukaspyrnu af um 35 metra færi sem einhvern veginn lak í markið.

Þegar síðara markið kom var ekki meira eftir af leiknum en svo að Þór/KA tók miðju og dómarinn flautaði af. Gríðarlega svekkjandi tap hjá Þór/KA staðreynd og voru þær í senn klaufar og óheppnar að hafa ekki klárað þennan leik.

Ivana Ivanovic var langbesti maður Þórs/KA í leiknum og er hún leikmaður sem nauðsynlegt er að halda í á næstu árum fyrir þetta unga lið því hún kemur með yfirvegun og leikskilning inn í það.

Nýjast