Sýningin GraN 2015 verður opnuð í Listasafninu á Akureyri í dag, laugardag, kl. 15:00 en þar sýna 25 grafíklistamenn frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Vegleg sýningarskrá kemur út af þessu tilefni. GraN 2015 endurspeglar þá fjölbreytni sem er að finna í grafíklist á Norðurlöndum og þann kraft og færni sem býr í norrænum grafíklistamönnum.
Að sýningunni stendur GraN sem er hópur grafíklistamanna og áhugamanna um myndlist á Íslandi sem stefnir að því að auka veg grafíklistar, koma á reglulegu sýningarhaldi og útgáfu á efni um grafík. Hópinn mynda Íslensk Grafík, Listasafnið á Akureyri, Akureyrarstofa, Norræna upplýsingaskrifstofan á Akureyri og Arsboreales. Í tilefni af opnun sýningarinnar hittast fulltrúar sýningarlandanna á fundum í Laxdalshúsi á Akureyri til að ræða áframhaldandi samstarf til eflingar grafíklista.
Sérstakir styrktaraðilar Gran 2015 eru Nordiska Kulturfonden, Menningarráð Eyþings, Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra og Norsk-islandsk kultursamarbeid. Sýningin stendur til 13. desember og verður opin þriðjudaga - sunnudaga kl. 12-17. Aðgangur er ókeypis.