Grænmetisbaka, Spínat-“píramídi” og Pavlova

Harpa Ævarsdóttir er hér með girnilegar uppskriftir í matarkrók vikunnar. “Ég ætla að bjóða upp á grænmetisböku sem ég geri oft – hlutföll og innihald er þó aldrei eins hjá mér heldur aðlagað að innihaldi ísskápsins hverju sinni – hér er hins vegar grunnuppskriftin. Einnig er hér “öðruvísi” brauðréttur í klúbbinn eða kaffiboðið og að lokum hin dásamlega Pavlova sem er ólýsanlega góð,” segir Harpa.

Grænmetisbaka

1 dl. haframjöl

2 dl. hveiti

100 g smjörlíki

100 g skyr (bláa skyrið) 

Hnoðið allt saman, gott að geyma svo í ísskáp í 30 – 40 mínútur (hef sjaldnast þolinmæði í það). Þrýsta deiginu í botninn og upp með hliðunum á eldföstu móti. 

Uppáhaldsgrænmetið ykkar eða hvaðeina sem hugmyndaflugið leyfir - t.d.

Spergilkál

Blómkál

Sveppir

Paprikur í ýmsum litum

Laukur

Hnetur

Pasta 

Léttsteikið grænmetið – og setjið ofan á deigið. 

3 egg

2 ½ dl. rjómi (matreiðslurjómi)

4 dl. rifinn ostur

Salt og annað krydd að eigin vali 

Allt þeytt saman og hellt yfir grænmetið. Bakan er svo bökuð í ofni við 200 ? C í 40 mín. 

Spínat-“píramídi”

Samlokubrauð – skorpulaust

Olía

2 – 3 hvítlauksrif (því meira því betra)

1 poki ferskt spínat

100 g rjómaostur

½ bolli grænar ólífur, saxaðar

1 bolli rifinn ostur

Salt og pipar

Ferskur mozzarellaostur 

Léttsteikið hvítlaukinn í olíunni, bætið spínatinu út á pönnuna og steikið áfram í smá stund. Hrærið saman rjómaostinum, ólífunum og rifna ostinum – saltið og piprið og bætið svo spínatblöndunni saman við og hrærið. Smyrjið blöndunni á brauðsneiðarnar og búið til samlokur. Skerið samlokurnar í tvo hluta – horn í horn – og raðið á bökunarplötu þannig að þær myndi “píramída” og stráið söxuðum mozzarella-osti yfir og bakið við 180 ? C í 10 – 15 mínútur. 

Pavlova

Alls konar hnallþórur eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Fyrir stuttu uppgötvaði ég þessa dásemd sem Pavlova er og deili henni hér með ykkur. 

8 eggjahvítur

500 gr. sykur

Örlítið salt

½ - 1 tsk. vanilludropar

4 msk. maizenamjöl

2 tsk. hvítvínsedik 

Þeytið eggjahvíturnar með saltinu þar til þær freyða vel og bætið þá sykri smám saman út í og þeytið vel eða þar til þær verða stífar og glansandi. Bætið þá vanilludropum, maizenamjöli og hvítvínsediki varlega saman við. Setjið á bökunarplötu – mótið í samræmi við kökufatið sem þið ætlið að nota. Forhitið ofninn í 180 ? C en lækkið í 150 ? C þegar kakan fer inn í ofninn og bakið í 1 ½ klst. – slökkvið á ofninum og látið kökuna kólna í honum. Ath. hún á að vera mjúk í miðjunni.

Þeytið ½ ltr. af rjóma með smávegis af vanilludropum út í – breiðið rjómann yfir kökuna og þar ofan á setjið þið FULLT af berjum og ávöxtum (bláber, jarðarber, granatepli, mangó, kiwi, vínber....).

Nýjast