Gamla KEA húsið á horni Hafnarstrætis og Kaupvangsstrætis verður fyrsta húsnæði Akureyrar sem leigt er út í grænni leigu. Markaðsstofa Norðurlands, Eyþing, Vaðlaheiðargöng og Ferðamálastofa hafa flutt starfsstöðvar sínar í húsið sögufræga. Næstkomandi fimmtudag munu þessir aðilar undirrita viljayfirlýsingu um græna leigu og verður húsnæðið þá skilgreint sem Grænn Reitur. Fasteignafélagið Reitir er eigandi húsnæðisins.
Græn leiga byggist á samkomulagi milli eiganda húsnæðis og leigutaka þar sem báðir aðilar skuldbinda sig til að reka húsnæðið með vistvænum hætti. Græn leiga tekur m.a. til endurvinnslu og sorpmála, innkaupa á rekstrar- og byggingarvörum og notkunar rafmagns og hitaveitu. Grænir leigusamningar hafa færst í vöxt erlendis í kjölfar vaxandi áherslu á umhverfismál.