Vel hefur gengið á hátíðinni Einni með öllu á Akureyri það sem af er og engin sérstök mál komið upp. Fjöldi fólks var á dagskrá hátíðarinnar í miðbæ Akureyrar í gærkvöld og fóru hátíðarhöldin vel fram. Veitingahús og skemmtistaðir voru vel sóttir. Nokkur ölvun var en gestir fóru þó fljótlega heim eftir að dansleikjum lauk og engin vandamál sköpuðust í miðbænum. Gott ástand var á tjaldstæðunum og svefnfriður með betra móti. Umferðin var slysalaus en fjórtán voru teknir fyrir of hraðan akstur og einn fyrir ætlaðan ölvunarakstur.