Göngufólk í sjálfheldu í Nesskriðum í Siglufirði

Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar frá Sigurvin þar sem hann lá fyrir utan er fólkinu var fylgt síð…
Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar frá Sigurvin þar sem hann lá fyrir utan er fólkinu var fylgt síðasta spölinn niður í fjöru. Mynd/Landsbjörg.

Björgunarsveitir í Eyjafirði og á Siglufirði voru fyrr í kvöld kallaðar út vegna fjögurra göngumanna sem treystu sér ekki lengra þar sem þau voru á göngu í Siglunesmúla, milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar. Göngufólkið var þá statt í svokölluðum Nesskriðum og höfðu verið á göngu í þó nokkra klukkutíma. Ekkert amaði að þeim annað en að þreyta var farin að setjast að og þau voru farin að kólna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Þar segir að björgunarfólk hafi verið ferjað á björgunarskipinu Sigurvin út Siglufjörð, ásamt því sem nokkrir slöngubátar hafi verið  notaðir til að ferja björgunarfólk frá Sigurvin í land.

Fljótlega eftir að Sigurvin var kominn út á fjörðinn sást til fólksins. Björgunarfólk var flutt í land á slöngubátum og kleif hlíðina til fólksins. Þegar björgunarsveitarmenn höfðu metið aðstæður var ákveðið að fylgja fólkinu aðeins norðar, í þá átt sem þau höfðu komið úr, þar sem var álitlegri leið til niðurgöngu.

Vel gekk að koma fólkinu niður í fjöru, en til að tryggja öryggi allra voru tryggingar settar upp við niðurgönguna.

Göngufólkið er nú komið um borð í Sigurvin sem flutti þau til Siglufjarðar.

Nýjast