Mánudagana 18. og 25.janúar og 1. febrúar kl. 20:00 verður boðið upp á hagyrðinganámskeið á Sigurhæðum undir stjórn Björns Ingólfssonar. Fjallað verður um helstu grundvallaratriði í vísnagerð s.s. rím, ljóðstafi, hrynjandi, og bragliði. Skoðaðir verða nokkrir algengir bragarhættir og þátttakendur fá að spreyta sig á verklegum æfingum. Hér er upplagt tækifæri fyrir þá, sem hafa gaman af vísum og ljóðum og setja jafnvel saman ljóð á góðri stund. Það vantar ef til vill kjarkinn til að sýna öðrum, af ótta við að "þetta sé ekki nógu gott", ekki samkvæmt reglunum. Björn Ingólfsson kann þetta.
Miðvikudagana 20. og 27. janúar og 3. febrúar kl. 20:00, verður Valdimar Gunnarsson með námskeið í íslensku á Sigurhæðum, sem ætlað er þeim sem vilja auka kunnáttu sína og færni við að rita gott íslenskt mál. Farið er yfir helstu hjálpargögn íslenskra málnotenda. Dæmi eru tekin um gott og slæmt málfar, beygingar, orðasambönd og stíl. Farið er yfir ýmis sératriði í ritreglum og algengar villur. Hér gildir það sama og um vísnagerðina. Margir hafa gaman af að skrifa, t.d. eigin minningar eða annarra, eða vilja opna sig um málefni líðandi stundar, en eru ragir að láta það frá sér af ótta við villur. Valdimar Gunnarsson hefur kennt íslensku við MA til margra ára og kann leiðir til að efla sjálfstraustið, segir í fréttatilkynningu