Góðverkavika í Akureyrarkirkju

Vikan einkenndist af allskonar góðverkum hjá krökkunum.
Vikan einkenndist af allskonar góðverkum hjá krökkunum.

Í byrjun júní var Góðverkavika fyrir krakka í 4. – 6. bekk haldin af Akureyrarkirkju. Verkefni vikunnar sneru að góðverkum af ýmsu tagi. Gleðikort voru unnin af og til yfir vikuna þegar tími gafst til. Á þau voru skrifuð falleg orð og setningar og svo var teiknað og föndrað eins og hugur þeirra listi.

Á föstudeginum voru kortin svo gefin niðrí bæ, þar sem börnin gáfu búðarstarfsmönnum kort sem og vegfarendum.

„Börnin fengu miklar þakkir fyrir þessi fallegu kort sem glöddu og þótti þeim gaman að gefa. Annað skemmtilegt verkefni sem börnin unni í vikunni var að semja brúðuleikrit fyrir leikskólabörn og sýna þau. Börnin höfðu frjálst val um efni leikritanna og fékk sköpunargleði þeirra að njóta sín. Til okkar komu svo 50 leikskólakrakkar með kennurum sínum að horfa á 5 stutt leikrit,“ segir Sonja Kro, æskulýðsfulltrúi Akureyrarkirkju.

„Einnig sungum við saman nokkur sunnudagsskólalög. Á einum sólardeginum fór hópurinn í Lystigarð Akureyrar þar sem börnin fengu að snyrta beð. Forstöðumaður garðsins var mjög þakklátur fyrir þetta góðverk. Þessi vika einkenndist af allskonar góðverkum og skemmtilegheitum með fjölbreyttum leikjum fyrir krakkana sem og bingói sem haldið var síðasta daginn. Góð umræða varð einnig um góðverk almennt svo vonandi eru börnin einhvers vísari um góðverk og temja sér þau eins oft og hægt er,“ segir Sonja Kro. 

Nýjast