Góður árangur í fíkniefnaátaki lögregluembætta á Norðurlandi

Um 50 fíkniefnamál hafa komið upp á liðnum þremur mánuðum eða frá því átak lögregluembættanna á Norðurlandi hófst  1. september síðastliðinn.  Það eru mun fleiri mál en vant er að sögn Gunnars Jóhannssonar lögreglufulltrúa hjá Lögreglunnin á Akureyri.   

Átakið nær til alls fjórðungsins, m.a. hafa lögreglumenn á Akureyri, Húsavík, Blönduósi og Sauðárkróki tekið þátt í því auk Ríkislögreglustjóra.  Það stendur til áramóta en óljóst er með framhaldið vegna óvissu í efnahagsmálum. "Eftirlitið  hefur verið hert til muna, við erum meira á ferðinni og förum víða," segir Gunnar, en jafnan er fíkniefnahundurinn Pardus með í för og hefur svo sannarlega sannað gildi sitt.  Lögreglumenn ásamt hundi hafa farið í framhalsskóla á Norðurlandi, leitað bæði í skólum og heimavistum, þeir hafa einnig verið á ferðinni á skemmtistöðum, farið um svæði þar sem vöruflutningar fara fram, svo sem á flugvöllum, pósthúsum og afgreiðslum flutningabíla.  Að auki hafa hundar verið notaðir við húsleitir og leit í bílum.  "Þeir hafa komið að mjög góðum notum og sýnt og sannað að þeir eiga fullt erindi," segir Gunnar, en mun fleiri mál hafa komið upp nú í haust en venja er til og eins hafa hundarnir verið drjúgir.  Málin sem upp hafa komið frá september til nóvemberloka eru um 50 talsins og þá hefur fundist meira magn fíkniefna, bæði kanabis sem og sterkari efna en vant er, að sögn Gunnars.

Hann segir að átakið standi til áramóta, þá sé fyrirhugað að fara yfir árangurinn og meta hann.  "Ég veit ekki hvert framhaldið verður, það berast nú einkum boð um niðurskurð og sparnað í rekstri og menn eru á fullu að leita leiða til að mæta þeim kröfum.  Þetta eftirlit kostar vissulega peninga en að okkar mati hefur það skilað góðum árangri.  Þetta átak felur í sér að nota þarf mikinn mannskap og kostar því peninga.  Þannig að á þessu stigi vitum við ekki hvert framhaldið verður," segir Gunnar.

Nýjast