Góð uppskera en misjöfn gæði

Fyrsta slætti er lokið í Eyjafirði. Skúrasamur júní mánuður sett strik í reikninginn. Uppskeran er g…
Fyrsta slætti er lokið í Eyjafirði. Skúrasamur júní mánuður sett strik í reikninginn. Uppskeran er góð en gæðin misjöfn. Mynd/ MÞÞ
Greinin birtist fyrst í prentútgáfu Vikublaðsins 17. júlí.

 

 Fyrsta slætti er heilt yfir lokið í Eyjafirði og segir Sigurgeir Hreinsson framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar að uppskera sé góð víðast hvar en gæðin aftur á móti misjöfn. Nokkrir bændur eru í öðru slætti.

„Það fór allt vel af stað í vor, hlýindakaflinn í maí gerði að verkum að spretta fór snemma af stað. Í byrjun júní skipti um og við tók kuldatíð með bleytu og almennt var júní frekar skúrasamur. Nefnir Sigurgeir að það sé býsna merkilegt og eflaust í fyrsta sinn sem það gerist að júní sé kaldari en maímánuður. Hiti í júní var tveimur gráðum lægri en meðalhiti síðustu tíu ára og þá fór úrkoma langt fram yfir meðaltal undangenginna júnímánaða og var með mesta móti.

„Þannig að segja má að lengst af hafi verið erfitt við heyskapinn að eiga. Sprettan var mjög góð, uppskeran er með betra móti þegar kemur að magni en því miður eru gæðin talsvert misjöfn,“ segir Sigurgeir. „Rigningin var mjög áberandi í júní og hafði neikvæð áhrif, það var mjög blautt og víða erfitt að fara um tún. . Þá var ekki alltaf hægt að þurrka hey nægilega og eins og bændur helst kusu. Hún setti því strik sitt í reikninginn en niðurstaðan er þessi eftir fyrsta slátt að magnið er mikið en gæðin ekki alls staðar upp á það besta.“

Nýjast