Góð þátttaka í Botnsvatnshlaupi Landsbankans

Verðlaunahafar í Botnsvatnshlaupinu 2025. Mynd: Botnvatnshlaup Landsbankans/Facebook.
Verðlaunahafar í Botnsvatnshlaupinu 2025. Mynd: Botnvatnshlaup Landsbankans/Facebook.

Botnsvatnshlaup Landsbankans er einn af föstu liðum Mærudaga á Húsavík. Stofnmeðlimir hlaupahópsins Skokka stofnuðu hlaupið árið 2012 og hafa ávallt einhverjir meðlimir hópsins komið að framkvæmdinni síðan. Þetta var síðasta Botnsvatnshlaupið sem Hlaupahópurinn Skokki kemur formlega að.

„Það er full ástæða til að þakka þeim frumkvöðlum sem komu þessu af stað á sínum tíma enda hefur viðburðurinn verið einn sá alrótgrónasti á Mærudögum og notið sífelldra vinsælda. Þökkum einnig Begga, Önnu og co. í Landsbankanum á Húsavík en þau hafa stutt að miklum myndarskap við viðburðinn og hjálpað honum að verða að veruleika ár hvert. Einnig kærar þakkir til SMIÐJUNNAR fyrir frábært samstarf undanfarin ár,“ segir í tilkynningu á Facebooksíðu Skokka.

Hlaupið fór fram á föstudag í góðu hlaupaveðri og alls tóku 82 hlauparar þátt í vegalengdunum tveimur. „Sérlega ánægjulegt hvað að sjá hvað mörg mættu af ungu kynslóðinni. Hlaupið endaði að vanda í Skrúðgarðinum við Kvíabekk og þar voru einnig veitt verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í 8,3 km hlaupinu,“ segir í Facebookfærslu viðburðarins.

Hjá körlunum varð Atli Steinn Sveinbjörnsson hlutskarpastur, Gunnar Árni Hinriksson annar og Sæþór Olgeirsson þriðji. Hjá konunum varð Ragna Baldvinsdóttir fyrst, María Kristín Bjarnadóttir önnur og Maríon Edda Stefánsdóttir þriðja.

Nýjast