Glæsilegur sigur Þórs á Hamri

Þórsarar sigruðu í kvöld Hamar úr Hveragerði á mjög sannfærandi hátt í Iceland Expressdeild karla í körfubolta, lokatölur 92-74. Leikurinn fór fram fyrir framan um 200 manns í Íþróttahúsi Síðuskóla og létu áhorfendur vel í sér heyra, leiddir af skemmtilegri stuðningsmannasveit Þórsara. Þórsarar voru sterkari aðilinn allan leikinn og má til að mynda nefna að Hamar komst aldrei yfir í leiknum, einungis var jafnt í stöðunni 0-0.

Eftir fyrsta leikhluta var staðan 30-13 fyrir Þór og fóru þeir þá hreinlega á kostum. Þeir gáfu hins vegar aðeins eftir í öðrum leikhluta og eftir hann var staðan 50-40 fyrir Þór. Í þriðja leikhluta virtust Þórsarar ætla að gefa enn eftir og náðu Hamarsmenn að minnka muninn í 6 stig en þá sögðu Þórsarar stopp. Þeir spýttu í svo um munaði og náðu aftur góðri forystu áður en flautað var til loka þriðja leikhluta.

Í fjórða leikhluta var svo aldrei spurning hvort liðið ætlaði sér sigurinn, Þórsarar hreinlega völtuðu yfir gesti sína og spiluðu stórvel. Að lokum var munurinn 18 stig, 92-74, og gátu Þórsarar leyft sér að leyfa varamönnum sínum að spreyta sig síðustu mínúturnar.

Leikurinn var mjög góður hjá Þórsurum, baráttan var frábær og sást það best á því að þeir hirtu t.d. næstum öll fráköst og voru mun ákveðnari undir körfunni. Cederic Isom var frábær í liði Þórs en langflestir  skiluðu sínu, þó má nefna að Óðinn Ásgeirsson og Luka Marholt áttu virkilega góða spretti.

Með sigrinum enduðu Þórsarar fjögurra leikja taphrinu í röð og náðu að lyfta sér upp úr fallsætinu sem þeir voru í fyrir leik.

Nýjast