08. desember, 2009 - 15:13
Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2010 verður lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag,
þriðjudaginn 8. desember. Áætlunin gerir ráð fyrir hallalausum rekstri samstæðunnar þrátt fyrir minni tekjur að raunvirði og aukin
útgjöld á vissum sviðum. Þennan árangur má rekja til þess að ítrasta aðhalds verður gætt á öllum sviðum og
allra leiða leitað til þess að draga úr útgjöldum.
Áætlunin var unnin í samráði við oddvita allra flokka í bæjarstjórn og í þeirri vinnu var haft að leiðarljósi
að verja grunnsþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi og félagslega þjónustu. Jafnframt var sérstaklega horft til þess
að ekki þurfi að koma til uppsagna vegna þeirra aðgerða sem gripið verður til. Að lokinni fyrri umræðu í bæjarstjórn verður
áætlunin lögð aftur fyrir bæjarráð og fer þaðan til seinni umræðu bæjarstjórnar sem væntanlega fram fer fimmtudaginn 17.
desember nk.
- Forsendur áætlunarinnar eru að hér verði 3,5% meðalverðbólga á árinu 2010 og að íbúum fjölgi um 200.
- Skattar og þjónustutekjur Aðalsjóðs verða rúmir 10,7 milljarðar en heildargjöld tæpir 11,6 milljarðar.
Fjármunatekjur Aðalsjóðs eru áætlaðar tæpir 0,9 milljarðar. Afgangur af rekstri Aðalsjóðs er því áætlaður
65 milljónir króna.
- Gert er ráð fyrir óbreyttu útsvari, 13,28%, í fyrirliggjandi áætlun. Álagningaprósenta fasteignaskatta á
íbúðarhúsnæði hækkar um 4% en stofn fasteignamats íbúðarhúsa er óbreyttur og lækkar lítillega á
atvinnuhúsnæði. Tekjur úr Jöfnunarsjóði eru áætlaðar óbreyttar milli ára.
- Almennt er gert ráð fyrir að gjaldskrár hækki sem nemur verðlagshækkunum en endanlegar tillögur þar að lútandi verða lagðar
fyrir bæjarráð næstkomandi fimmtudag. Sorphirðugjald hækkar allnokkuð eða í samræmi við aukinn rekstrarkostnað í
málaflokknum. Þrátt fyrir miklar almennar kostnaðarhækkanir er reynt að stilla gjaldskrárhækkunum mjög í hóf.
- Kjarasamningar við flest stéttarfélög eru lausir en ekki er gert ráð fyrir launahækkunum á næsta ári umfram gildandi samninga við
Einingu-Iðju og Kjöl. Laun bæjarstjóra, bæjarfulltrúa og nefndarfólks voru lækkuð um 10% á þessu ári og verða
óbreytt á næsta ári. Dregið verður áfram úr yfirvinnu þar sem það er mögulegt. Ekki verða uppsagnir meðal starfsmanna
bæjarins en farið verður sérstaklega yfir öll störf sem losna og allar nýráðningar.
- Í almennum rekstrargjöldum stofnana og deilda er áfram skorið niður eins og hægt er og horft þá sérstaklega til þátta eins og
ferða, skrifstofuvara, kaupa á áhöldum og munum o.s.frv. Starfstími á leikskólum og í Frístund hefur verið styttur á þessu
hausti og verður svo áfram.
- Á næsta ári verður lögð áhersla á að ljúka þeim stóru framkvæmdum sem hafnar eru. Opnun menningarhússins Hofs
var frestað til sumarins 2010 og sama gildir um opnun íþróttamiðstöðvar við Giljaskóla. Samtals eru framkvæmdir áætlaðar
rúmir 1,4 milljarðar kr. í Aðalsjóði og rúmir 2,2 milljarðar í samstæðunni allri.
- Heildartekjur í samstæðureikningi Akureyrarbæjar eru áætlaðar rúmir 15,2 milljarðar króna. Rekstrarafgangur er áætlaður
tæpar 8 milljónir kr. á samstæðunni allri en rekstrarhalli var tæpur 1 milljarður í endurskoðaðri áætlun þessa árs.
Halli á rekstri Fasteigna Akureyrarbæjar er áætlaður tæpir 0,5 milljarðar króna en hagnaður af rekstri Norðurorku er áætlaður
tæpir 0,5 milljarðar króna.
- Afborganir lána nema 2,3 milljörðum og ný lán verða tekin fyrir 2,3 milljarða kr. Handbært fé frá rekstri verður rúmur 1,1
milljarður kr. í árslok 2010.