Gert ráð fyrir 39 milljóna króna rekstrarafgangi í Eyjafjarðarsveit

Fyrri umræða fjárhagsáætlunar Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2010 var í vikunni en á fundinum var einnig til endurskoðunar fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár. Síðari umræða um fjárhagsáætlun verður 11.  desember nk.  „Við gerð fjárhagsáætlunar 2009 var strax brugðist við þeim hremmingum sem dunið hafa yfir og gert ráð fyrir minnkandi tekjum, þannig að við skárum niður í rekstri eins og hægt var," segir Jónas Vigfússon sveitarstjóri.  

Hann segir að tekist hafi að minnka rekstrarkostnað sveitarfélagsins milli ára um nær 27 milljónir króna,  en tekjur hafi hins vegar aukist um 23 milljónir.  „Þannig að eins og staðan er nú þá lítur út fyrir að sveitarfélagið verði rekið með rekstrarafgangi upp á tæplega 39 miljónir á þessu ári," segir Jónas. Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár er gert ráð fyrir svipuðum rekstri og verið hefur á þessu ári, þ.e.a.s. gætt verður aðhalds á öllum sviðum en ekki farið í frekari niðurskurð. Lítið verður um gjaldskrárbreytingar en þó er gert ráð fyrir að sorphirðugjöld hækki um 20% og rotþróargjöld um 10% og þá verður gjaldskrá yfirfarin vegna skóla og leikskóla meðal annars með tilliti til  afslátta.

Gert er ráð fyrir lækkandi tekjum milli ára.  Miðað við þær forsendur er búist við að tekjur A-hluta sveitarsjóðs verði  um 522 milljónir króna og rekstrargjöld verði um 520 milljónir króna.

Nýjast