Gera þarf lagfæringar á skipulagi vegna framkvæmda við Dalsbraut

Óvissa er um framkvæmdir við Dalsbraut, eftir úrskurð ÚUA. Mynd: Hörður Geirsson.
Óvissa er um framkvæmdir við Dalsbraut, eftir úrskurð ÚUA. Mynd: Hörður Geirsson.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, ÚUA, hefur úrskurðað í Dalsbrautarmálinu á Akureyri og samkvæmt heimildum Vikudags er niðurstaða nefndarinnar sú að ekki sé hægt að ráðast í framkvæmdir að óbreyttu og að gera þurfi lítilsháttar lagfæringar á skipulagi. Áður hafði nefndin stöðvað fyrirhugaðar framkvæmdir, að loknu útboði á verkinu, á meðan stjórnsýslukæra sem lögð var fram, var til meðferðar. Kæran var lögð fram vegna þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Akureyrar að samþykkja deiliskipulag fyrir Dalsbraut frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut. Ekki er ljóst á þessari stundu hver framvinda málsins verður en Vikudagur hefur heimildir fyrir því að gerðar séu smávægilegar athugasemdir við skipulagið á kaflanum norðan við Skógarlund, sem þurfi að lagfæra. Þessi niðurstaða þýðir væntanlega að ekki verði hægt að ljúka framkvæmdum á þessu ári en að hugsanlegt sé að vinna við kaflann frá Skógarlundi að Miðhúsabraut í sumar en ljúka svo framkvæmdum frá Skógarlundi að Þingvallastræti á næsta ári. Enn er þó óljóst á þessari stundu hvert framhald málsins verður sem fyrr segir. Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri á Akureyri vildi ekki tjá sig um þetta mál þegar eftir því var leitað.

Nýjast