Miklar skemmdir voru unnar á íbúð við Brekkugötu á Akureyri á dögunum en einhver eða einhverjir þrjótar höfðu gert sér það að leik að taka garðslöngu með úðaranum á og tróða öllu inn um glugga á íbúðinni sem er á miðhæð og skrúfað frá. ,,Þetta er afskaplega dapurt fyrir okkur og þá ekki síður fyrir þann eða þá sem þarna voru að verki því maður getur ómögulega skilið hvaða hvatir liggja að baki því að menn geri svona hluti," segir Guðríður Friðriksdóttir eigandi íbúðarinnar við Brekkugötu. Enginn var heima þegar þetta átti sér stað en það er talið hafa verið á föstudagskvöldi eða aðfaranótt laugardagsins. ,,Þetta uppgötvaðist undir hádegi daginn eftir þegar kona sem býr á efri hæðinni átti leið út og sá vatn koma út úr íbúðinni hjá okkur. Hún hringdi í lögreglu sem hafði svo samband við okkur. Við tæmdum íbúðina en það eru talsverðar skemmdir bæði á íbúðinni og á innanstokksmunum," segir Guðríður.
Hún segir öll gólfefni í íbúðinni hafa verið ónýt og einnig sökklar á skápum og innréttingum. Verst finnst henni þó að fjölskyldumyndasafn hennar skemmdist en hún segist hafa tekið mikið af myndum í gegnum tíðina. Myndasafnið var geymt í geymsluherbergi og það var einmitt inn um glugga á þeirri geymslu sem skammdarvargarnir settu slönguna með úðaranum inn og skrúfuðu frá. Guðríður segir málið vera í rannsókn hjá lögreglu en eflaust verði það þrautin þyngri að upplýsa mál eins og þetta.