Nú fer í loftið nýr liður hjá okkur á Dagskránni.is en það er Gamla fréttin. Við munum hér eftir birta gamla frétt úr norðan blöðum einu sinni í viku, þó með þeirri undantekningu að í þessari viku verða þær tvær. Gamla fréttin sem við birtum í dag er úr Víkurblaðinu á Húsavík sem kom út miðvikudaginn 26. mars 1986. Fréttin fjallar um opnun nýrrar flugstöðvar á flugvellinum í Aðaldal, en það á vel við enda innanlandsflug mikið verið í deiglunni að undanförnu, sem og reyndar millilandaflug á landsbyggðinni. Á morgun verður svo gömul frétt úr Degi. Gamla fréttin í dag er svona:
Almenn ánægja ríkir með nýju flugstöðina á flugvellinum í Aðaldal. Að vísu voru fyrstu farþegar suður ekki alltof hressir með að þurfa að bregða sér í hlutverk farangurs, og sæta hefðbundinni fragtmeðferð (þeir fóru reyndar ekki á færibandið) á meðan heldri menn og aðrir gestir einokuðu farþegasalinn í opnunarathöfn mikilli s.l. föstudag. En það gleymist væntanlega fljótt.
En kannski eiga flughræddir eftir að fá glaðning með tilkomu stöðvarinnar, a.m.k. ef marka má fyrsta farþegaflug norður þegar stöðin var tekin í notkun. Það flug var eindæma gott, hvurgi ókyrrð í lofti, sannkölluð óskaflugferð flughræddra, og ef svona heldur áfram mun flughræðsla væntanlega leggjast af á þessari flugleið.
Hitt er svo annað mál að máltækið segir „fall er fararheill“. En það á tæpast vel við í flugi, þar sem fall jafngildir hrapi, sem er fremur óþægilegt upphaf á flugferð.
Víkurblaðið óskar sjálfu sér og Þingeyingum öllum til hamingju með nýju flugstöðina. JS/EPE