Gámaþjónusta Norðurlands bauð lægst í sorphirðu og Gullvagninn í flutning úrgangs

Fimm fyrirtæki sendu inn tilboð og fjölmörg frávikstilboð í sorphirðu fyrir heimili á Akureyri, rekstur gámavallar og flutning á úrgangi næstu átta árin en tilboðin voru opnuð í dag. Flokkun ehf. var aðili að útboðinu, sem snýr að rekstri á móttökustöð og flutningi á úrgangi á Sölvabakka við Blönduós. Fyrirtækin sem sendu inn tilboð eru Íslenska Gámafélagið ehf., Gámaþjónusta Norðurlands ehf., G.V. Gröfur ehf., Gullvagninn ehf. og Árni Helgason ehf.  

Um var að ræða tilboð í tvær flutningsleiðir - leið A og leið B og tvær leiðir við sorphirðu - leið A og leið B. Þar er annars vegar um að ræða ýtarlega flokkun í tvær tunnur og þá fjölgun grenndarvalla í tólf, eða hins vegar þrjár tunnur við heimili og enga grenndarvelli. Gámaþjónusta Norðurlands átti lægsta tilboð í báðir leiðirnar í sorphirðu. Fyrirtækið bauð um 762,5 milljónir króna í leið A á þessu átta ára tímabili, tæplega 54% af kostnaðaráætlun, sem er upp á rúmlega 1,4 milljarða króna. Fyrirtækið bauð rúmar 622 milljónir króna í leið B fyrir sama átta ára tímabil, eða 55% af kostnaðaráætlun, sem er rúmir 1,3 milljarðar króna. Íslenska Gámafélagið átti næst lægsta tilboð í báðar leiðirnir í sorphirðu. Fyrirtækið bauð um 932,5 milljónir króna í leið A, eða 65,9% af kostnaðaráætlun og 934,3 milljónir króna í leið B, eða 82,6% af kostnaðaráætlun.

Gullvagninn átti lægsta tilboðið í flutning úrgangs á þessu átta ára tímabili, bæði varðandi leið A og B. Fyrirtækið bauð 200 milljónir króna í leið A, eða 48,3% af kostnaðaráætlun og um 231 milljón króna í leið B, sem einnig er 48,3% af kostnaðaráætlun. Kostnaðaráætlun varðandi leið A er 414 milljónir króna og 478,4 milljónir króna varðandi leið B. G.V. Gröfur áttu næst lægstu tilboð í báðum tilvikum, fyrirtækið bauð 207 milljónir króna í leið A og 239,2 milljónir króna í leið B.

Sem fyrr segir bárust einnig fjölmörg frávikstilboð. Samkvæmt upplýsingum Helga Más Pálssonar deildarstjóra framkvæmdadeildar Akureyrarbæjar, snúa næstu skref að því að yfirfara og meta tilboðin og gefa þeim einkun, áður en ákvörðun um framhaldið verður tekin.

Nýjast