Galdurinn að hafa gaman af og ástríðu fyrir starfinu

„Ég er algjörlega elsku sáttur við starfsferilinn og hefði hvergi annars staðar viljað vera,“ segir Ragnar Sverrisson sem fagnar því á laugardag, 22 nóvember að hafa starfað hjá versluninni JMJ á Akureyri í 60 ára. „Galdurinn við að endast svona lengi er að hafa gaman af starfinu og sinna því af ástríðu alla daga.“

Tengdafaðir hans, Jón M. Jónsson átti verslunina þegar hann hóf þar störf, Ragnar og Guðný kona hans tóku við rekstrinum og nú hin síðari ár hafa börn þeirra, 5 talsins átt verslunina en einn sonanna, Jón M hefur reksturinn á sinni könnu. Á næsta ári, 11. ágúst nánar til tekið verða 70 ár liðin frá því verslunin var stofnuð, en hún er í hópi elstu fyrirtækja sem enn eru í rekstri á Akureyri. Árið 1995 var aukið í og önnur verslun, Joe‘s var opnuð og hafa þessar tvær verslanir verið reknar undir sama þaki í 30 ár.

Ragnar var í nóvember árið 1965, 16 ára gamall á samningi hjá Prentverki Odds Björnssonar, POB og hugðist læra bókband. Jón M. var nokkuð umsvifamikill kaupmaður á Akureyri í þá tíð, en auk verslunar rak hann stóra saumastofu með um 12 saumakonum. „Hann hafði samband við mig og bauð mér vinnu hjá sér í búðinni, ég sló til, ekki endilega af því ég hafði brennandi áhuga á verslunarstörfum,“ segir Ragnar sem á þessum tíma hafði augastað á Guðnýju, dóttur Jóns. „Það réð nú á þessum tíma mestu um að ég söðlaði um og lét bókbandið lönd og leið.“

Ragnar ungur maður í verslun JMJ. Myndir er tekin árið 1984.

Gæfuspor

Það segir hann hafa verið gæfuspor því Ragnar og Guðný rugluðu saman reitum, stofnuðu fjölskyldu og ráku fyrirtækið saman um árabil. Ragnar er klæðskeri líkt og tengdafaðirinn var en hjá honum lærði hann iðnina.

„Ég man vel eftir fyrsta deginum, hann er ljóslifandi í hugskotum mínum,“ segir Ragnar, en þegar hann hóf störf í JMJ voru nákvæmlega tvö ár liðin frá því Kennedy Bandaríkjaforseti var skotin og var atburðurinn rifjaður upp í útvarpi. Ragnar man líka eftir fyrsta kúnnanum, það var Jóna Steinbergsdóttir sem síðar varð formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri. „Hún keypti skyrtu, ég man það,“ segir hann og rifjar einnig upp að fyrsti dagurinn í nýju vinnunni var þriðjudagur, því hjátrúin bauð ekki upp á að hefjast störf á nýjum stað á mánudegi.

Á myndinni eru frá hægri Sigþór Bjarnason, Gunnlaugur Sverrisson, Birgir Björnsson, Jón M Ragnarsson, Sverrir Ragnarsson og Ragnar Sverrisson

Öll föt í verslun saumuð í saumastofunni

Ragnar segir að á sínum fyrstu árum hafi allur fatnaður sem seldur var í versluninni verið saumaður hjá Burkna og oft verið mikið að gera. „Þetta var öflug saumastofa, það var allt saumað á staðnum og sumt náði miklum vinsældum eins og svonefndar flautubuxur en auðvitað var líka mikið um að karlar væru að kaupa sér jakkaföt. Þeir komu yfirleitt þrisvar til okkar á meðan verið var að sauma, það þurfti að velja efni og snið og annað slík, en einnig að koma til máta. Þetta var töluvert ferli,“ segir Ragnar en fljótt fann sig vel í verslunarstörfunum. „Þetta átti vel við mig, ég hef alltaf átt gott með að umgangast fólk og hef gaman af að spjalla. Það er líka gott að vera heiðarlegur og segja satt og rétt frá þegar maður er að selja, það er farsælast,“ segir hann og bætir við með bros á vör: Þá verður maður auðvitað dáður og dýrkaður.

Ekki myndi ég vilja hafa þig í vinnu

Í framhaldinu rifjar hann upp sögu þar sem ekki er beint hægt að segja að viðskiptavinurinn hafi sýnt mikla ánægju. Skarphéðinn í Amaro kom einhverju sinni í verslunina að sækja jakkaföt. Úti var slyddurigning og Ragnar vildi gera vel við þennan ágæta viðskiptavin og hugðist pakka fötunum vel inn, en í þá daga, fyrir plastið, var öllu pakkað inn í umbúðapappír. „Ég reif vel af rúllunni og ætlaði að hafa þetta tvöfalt svo minni hætta væri á að fötin myndu blotna. Þegar hann sér hversu ríflega ég tók að pappírnum sagði hann: Ekki myndi ég vilja hafa þig í vinnu!“

Í efri röð frá hægri eru Steindór Steindórsson og Ólafur Andri Ragnarsson Frá hægri í neðri röð eru Ragnar Þór Ragnarsson, Hulda Ragnarsdóttir, Sverrir Ragnarsson, Ásgeir Ólafsson og Jón M Ragnarsson

Skipað gæti ég

Annað atvik nefnir Ragnar sem er honum minnisstætt, en tengdafaðirinn hafði beðið hann að fara með buxur sem þurfti að stytta og helst í snarheitum á saumastofuna. Hann gerði það, skellti buxunum á borðið og sagði: Þetta þarf að vera tilbúið á morgun. Saumakonan, Fríða að nafni svaraði þá stundarhátt: Skipað gæti ég væri mér hlýtt. „Ég lærði mikið af þessu og það hefur reynst mér vel, alltaf að biðja fólk fallega um að gera eitthvað fyrir þig. Þetta var góð lexía.“

Ragnar og Guðný keyptu reksturinn árið 1982 og ráku fyrirtækið fram til áramóta 2016 til 17 þegar börnin þeirra tóku við keflinu og eru nú þriðji ættliður í rekstri þess. Börnin eru 5 sem fyrr segir en einn sonurinn, Jón M sér um daglegan rekstur. Þeir feðgar, Jón og Ragnar hafa starfað saman um árabil og segja að þeim komi núorðið ágætlega saman, tími Ragnar að segja syninum til sé liðinn og einnig sá tími sem Jón sá um tilsögnina. „Við höfum fundið gott jafnvægi og þetta gengur afar vel hjá okkur núna,“ segir Ragnar.

Feðgarnir Jón og Ragnar með mynd af Sigþóri Bjarnasyni, Danda á milli sín, en hann stafaði hjá JMJ í hálfa öld. Dandi lést fyrir tveimur árum. Hann gaf Ragnari áletraða klukku í tilefni af 25 ára starfsafmæli Ragnar í versluninni og því fer það aldrei framhjá neinum sem á klukkuna lítur hvenær Ragnar hóf störf.

Átti inn fimm ára sumarfrí

Hann er 76 ára gamall og mætir í vinnu á hverjum dagi „Þegar ég varð sjötugur töldu börnin mér trú um að þetta væri orðið ágætt, nú ætti ég að hætta og fara að slaka á eftir langa starfsævi. Það má eiginlega orða það svo að þau hafi rekið mig heim. Ég var einhvern vegin ekki sáttur við að hætta og fannst ég eiga nóg eftir,“ segir Ragnar sem ólmur vildi mæta í vinnu. Börnin bentu þá á að hann hefði sára sjaldan tekið sér sumarfrí og reikuðu út að

hann ætti inn um það bil fimm ár í sumarfrí. Hann féllst á að taka sumarfrí og entist í því í um það bil þrjá mánuði. „Ég var alveg orðin viðþolslaus og bað um að fá að hoppa inn af og til mér til upplyftingar, kannski svona hálfan dag af og til og kauplaust,“ segir hann en mál þróuðust svo að hann mætir alla daga fyrstur manna og fer síðastur.

 Starfsliðið í JMJ, Kjartan Ingvar Jósavinsson, Ragnar Sverrisson og Jón M. Ragnarsson

Heldur áfram meðan heilsan leyfir

Á meðan heilsan er góð er hann því ekki á förum úr búðinni. „Það er auðvitað mikið betra að hafa hann hér í góðu stuði yfir daginn en heima að telja flugur um gluggann, þetta er fínasta fyrirkomulag og um að gera fyrir fólk sem býr við góða heilsu að gera það sem það helst kýs,“ segir Jón M sonur hans, en feðgarnir eru ánægðir með þær góðu viðtökur sem verslunin hefur fengið í nær sjötíu ára sögu sinni. Þeir segja heimamenn góða viðskiptavini og margir leggi á sig langar leiðir til að versla á Akureyri. „Fólk bæði austan og vestan við okkur kemur mikið við og finnst gott að sinna erindum í bænum. Það er ánægjulegt og á það þurfum við að horfa, það sem lyftir bænum upp en ekki það sem dregur hann niður eins og stundum vill verða ofan á í umræðunni.

JMJ húsið

Nýjast