Gagnrýnir bæinn fyrir auglýsa eftir framkvæmdastjóra fyrir Hof

Oddur Helgi Halldórsson bæjarfulltrúi L-lista lagði fram bókun á fundi bæjarráðs Akureyrar í morgun, þar sem hann gagnrýnir þá ákvörðun bæjarins að auglýsa eftir framkvæmdastjóra fyrir Menningarhúsið Hof.  

Bókun Odds Helga er svohljóðandi: "Það er viðtekin venja að stjórnir félaga velja sér framkvæmdastjóra sem þá starfa í umboði þeirra og eftir þeirra áherslum og vilja.
Meirihluti bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar sagði það eitt af meginrökum fyrir að setja rekstur menningarhúss undir sjálfseignarfélag væri að við það öðlaðist húsið sjálfstæði og væri ekki hætta á íhlutun bæjaryfirvalda. Lagði meirihlutinn mikla áherslu á þetta atriði. Því finnst mér það mjög furðulegt að bærinn skuli nú auglýsa eftir framkvæmdastjóra fyrir húsið.  Það gengur gjörsamlega á skjön við röksemdarfærslu þá sem beitt var þegar ákveðið var að setja reksturinn í hendur sjálfseignarfélags ef bærinn ætlar nú að skikka því framkvæmdastjóra. Þetta er enn eitt dæmið um gerræðislegar og undarlegar aðgerðir meirihlutans. Þess ber að geta að ég er alfarið á móti því að setja reksturinn í hendur annarra og greiddi atkvæði gegn þeirri ákvörðun á sínum tíma."

Nýjast