Til stendur að fækka ferðum milli Húsavíkur og Akureyrar úr 21 ferð á viku í 14 ferðir á viku. Um er að ræða 36% skerðingu á ársgrundvelli þar sem samkvæmt útboði Vegagerðarinnar hafa verið farnar 1136 ferðir á ári en verða nú 728. Þessi skerðing er mun meiri en boðuð var í fyrstu.
Ljóst er að skerðingin mun koma sérlega illa við námsmenn, öryrkja og aldraða sem og þá sem notað hafa áætlunarferðirnar í tengslum við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri eða flug til og frá Akureyri. Framsýn hefur fullan skilning á því að Vegagerðin þurfi að leita leiða til að spara í rekstri. Hins vegar fellst félagið ekki á að ferðum verði fækkað um hátt í 40% á ársgrundvelli. Ekki síst í ljósi þess að þegar flugsamgöngur lögðust af um Húsavíkurflugvöll var því lofað á móti að tíðni áætlunarferða milli Húsavíkur og Akureyrar yrðu auknar til að mæta þörfum heimamanna. Tillögur Vegagerðarinnar nú, ganga alvarlega gegn þessu loforði samgöngumálayfirvalda.
Þá sætir það einnig furðu að Vegagerðin telji ekki ástæðu til að ræða við heimamenn um framkvæmd áætlunarferða milli staða. Það er þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda á hverjum tíma og eru því best dómbærir á þá lágmarksþjónustu sem þarf að vera til staðar fyrir íbúa og atvinnulífið á Norðausturlandi. Framsýn skorar á Vegagerðina að endurskoða boðaðar skerðingar á fjármagni til áætlunarferða frá Akureyri til Húsavíkur sem og til Þórshafnar í takt við þarfir og kröfur heimamanna, segir í ályktun félagsins.