Margeir Steingrímsson, íbúi á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri, hefur fært Öldrunarheimilum Akureyrar höfðinglega gjöf, peningagjöf að upphæð 3 milljónir króna. Gjöfin rennur í gjafasjóð Öldrunarheimila Akureyrar og á að nýta til að bæta og endurnýja húsbúnað og tæki heimilanna. Gjöf þessi sýnir velvilja Margeirs í garð Öldrunarheimila Akureyrar og mun nýtast afar vel til að bæta aðbúnað á heimilunum. Stjórnendur Öldrunarheimila Akureyrar eru mjög þakklátir velvilja og stórhug Margeirs og þakka þennan einstæða höfðingsskap.