Gæðabakstur kaupir Kristjánsbakarí

Kristjánsbakarí í miðbæ Akureyrar.
Kristjánsbakarí í miðbæ Akureyrar.

Gæðabakstur ehf. hefur fest kaup á Kristjánsbakaríi á Akureyri og eru kaupin gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Kristjánsbakarí er eitt af elstu fjölskyldufyrirtækjum landsins og á farsæla 103 ára sögu í samfelldri eigu þriggja ættliða. Bæði félög verða rekin áfram í óbreyttri mynd í sitt hvorum landshlutanum að því er fram kemur í fréttatilkynningu á vefnum veitingageirinn.is.

„Þótt félögin séu í tengdum rekstri eru þau mjög ólík, með mismunandi vöruúrval og starfsemi á mismunandi landsvæðum. Sú staðreynd ásamt þeirri þekkingu og reynslu sem Kristjánsbakarí býr yfir gerir kaupin mjög áhugaverð fyrir Gæðabakstur og teljum við kaupin mikinn styrk fyrir bæði félög,“ segir Vilhjálmur Þorláksson framkvæmdastjóri Gæðabaksturs.

Kristjánsbakarí verður rekið í óbreyttri mynd á Akureyri og munu fyrrum eigendur, Kjartan og Birgir Snorrasynir, halda áfram að reka félagið.

„Þetta eru góð tímamót fyrir okkur fjölskylduna, að sameinast sterku fyrirtæki sem getur tekið félagið lengra í núverandi samkeppnisumhverfi. Við höldum áfram að reka félagið og munum njóta góðs af stuðningi fyrir sunnan. Allar okkar vörur verða framleiddar á Akureyri, auk þess sem vöruframboð mun aukast. Það er von okkar að með þessu megi efla þjónustu við viðskiptavini okkar,“ segir Kjartan Snorrason framkvæmdastjóri Kristjánsbakarís.

Hann segir alla starfsmenn halda vinnunni. „Framleiðsla mun aukast og allt okkar góða starfsfólk verður áfram í vinnu hjá okkur á Akureyri. Við erum bjartsýnir á framtíðina enda hefur Kristjánsbakarí gengið vel í rúma öld.“

Nýjast