Eyrún Unnarsdóttir söngnemandi er fædd og uppalin á Brekkunni á Akureyri og hóf snemma tónlistarnám. Frá 15 ára aldri hefur hún lært söng, fyrst við Tónlistarskólann á Akureyri hjá Sigríði Elliðadóttur og Sigríði Aðalsteinsdóttur og frá árinu 2005 við Tónlistarháskólann í Vínarborg hjá prof. Leopold Spitzer. „Ég er að stefna á að taka masterspróf í þessu þannig að ég á eftir að vera þarna úti enn um sinn," segir hún aðspurð um hve lengi hún hyggist vera í Vín. Nú í vor tók hún sitt fyrsta diplómapróf af þremur og stóðst það með hæstu einkunn skólans. Sumt af því sem hún mun syngja á tónleikunum á morgun er einmitt af þessari próf-dagskrá.
Nýlega hlaut hún styrk frá KEA sem veittur er ungu afreksfólki. Eyrún hefur oft komið fram á Akureyri, bæði á vegum Tónlistarskólans og sem virkur þátttakandi í kórastarfi í bænum. Einnig hefur Eyrún tekið þátt í uppfærslum Tónlistarháskólans í Vínarborg og nú heldur hún í sínum heimabæ sína fyrstu einsöngstónleika.