Í ljóðinu Sólin skín á ölið (úr metsöluverðlaunabókinni Tehús ágústmánans) vitna ég í Bókina um veginn, taóspeki tæra sem þessa
Að stjórna stóru ríki er eins og að sjóða litla fiska
Eru fleiri kallaðir en útvaldir og þarf ekki kýrauga til að sjá. Tímarnir breytast og mennirnir með en samt virðast hinir kindarlegustu bera myndarlegastan hlut frá borði. Annað og verra að þeir drullast aldrei fram úr fjármálunum án þess að jarma!
Fyrsta maí 1965 skein sól í heiði þegar Björn Jónsson þandi raddbönd und rauðum fána við Kaupfélag verkamanna, en Jón Ingimarsson ritstjóri Verkamannsins stakk úr brúnum pela tilsýndar, snýtti móra í dröfnóttan vasaklút rauðsvartan og strauk svita úr enni. Í mannþrönginni hrópaði skólabróðir úr 1. bekk A, verðandi sprenghlauparinn Ágúst Kvaran, Heyr fyrir These boots are made for walking og fannst okkur Nancy Sinatra til muna áheyri- og ásjálegri en Björn.
Vel til höfð sítrónusneið
Fyrsta maí 1972 man ég langt fram á kvöld. Vaknaði góðglaður í Eyrarveginum syngjandi sólstafi Steina Eggerts (sem Gunnar Jökull kyrjaði á Trúbrotsplötunni 1969) með sjálfum mér upp Eiðsvöllinn
Dagur er fagur
fagran um dag
Um það í tenór syng ég
og var mættur á slaginu 12 00 á KEA-barinn í sumarljósu jakkafötunum frá FACO, lávarðarskónum svörtu með þverri tá, brúðkaupsbindi karls föður breitt, lordaskyrtan beinhvít á la Halldór Laxness.
Bað ég Hédda að hafa sítrónusneiðina vel til hafða í fyrsta staupi dagsins sem var tvöfaldur brennivín í vatni stritandi stéttum til sóma og heiðurs.
Liðaðist sunnudagur sá sem Eyjafjarðará um bakka Bakkusar og ma átti ég innkomu á Ráðhústorgi og greindi fagurgala Ólafs Ragnars Grímssonar en framan við hrokkinkoll stóðu Atli Rúnar Halldórsson, Guðmundur Heiðar Frímannson og Þröstur Ásmundsson í stuttfrökkum grám und stórkallalegum kröfuspjöldum
ÍSLAND ÚR NATÓ, HERINN Á BRAUT! 50 MÍLNA LANDHELGI STRAX!
Margt bar til og mörgu var fagnað í ginningu glasa þó ekki verði bókfært hér samviskunnar vegna. Víst er að upp úr sjö gómaði Jónas heitinn Þorbjörnsson skíðakappi mig aftan á gamla brunabílnum með bindið flaksandi. Það var útkall í Innbæinn vegna eldsvoða á eldavélarhellu. Jónas vissi sem var að ég átti að mæta í Laxárvirkjunarrútuna kl átta. Hvarf hátíðarsvipur foreldra minna sem lögg á flösku þegar yngsti sonurinn birtist líkastur forvörn ÁTVR & IOGT hrifsandi tannbursta og tösku.
Fyrsta maí 1991 var auglýst í Ríkisútvarpinu að Samkoman færi fram við Alþýðuhúsið. Þekkti ég hús það að góðu einu, hljómburður hvurgi betri né hátíðarhöld önnur, og margt eitt stigið þar með fröken Hvannarót til fagnaðar og spor mín létt niður Odduna.
Mættu ábúendur fæðingarhreppsins etv lærdóm nokkurn draga af brag þeim sem Eyjapeyinn Eiríkur Guðnason frá Vegamótum setti saman af ærnu tilefni
Ein var snót í ástarþrá,
engill til var sendur.
Kúrir núna karli hjá,
kaupmanni sem stendur
og heyrir kannski undir Íslandsvísur hinar nýrri, amk sýnist mér svo akkúrat núna í 39 stiga hita Sumarlandsins.
Pönnukökur, vöfflur og kleinur
Kom því flatt upp á mig að á Allanum stóð Félagsvist aldraðra upphleyptum stöfum á útvegg og hvurki mann né konu að sjá. Ég aftur upp í ráðskonuíbúð Fagraskógarskáldsins og eftir stutta kröfugöngu strjála fólks lyfti lyftan okkar í Bláhvamm Skipagötu og í þeim Alþýðuhússkassa hlýddum við Ólína Jóna og Kerstín á ávörp maulandi súkkulaði- rjóma- og skúffutertur ásamt pönnukökum, vöfflum og kleinum. Og það má ég barasta að segja, samviskunnar vegna, að sjaldan hefi ég verið svo frjáls af öllum launa- og réttlætiskröfum sem Fyrsta maí daginn þann!
Megi Akureyringar troða feðra sinna slóð ótrauðir enn, klífandi kirkjunnar tröppur og Krabbastíg, svo ó- sem einstaklingsbundnir til persónuleikakosninga í Bæ allra lífsins gæða, Bænum okkar, Höfuðstað Norðurlands. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá & JÁFRAM VEGINN!
Jóhann Árelíuz
skáld og Eyrarpúki