Fyrsti knattspyrnuleikur sumarsins á Akureyri verður spilaður nk. sunnudag, 13. maí, kl. 16 þegar KA tekur á móti Víkingi Ólafsvík í 1. deild Íslandsmótsins. Til stóð að leikurinn færi fram á Akureyrarvelli, en þar sem hann er ekki tilbúinn hefur verið ákveðið að flytja leikinn á Nývang, nýjasta grasvöllinn á KA-svæðinu, sem kemur mjög vel undan vetri og er án efa besti völlur bæjarins á þessu vori. Leikurinn hefst kl. 16:00.
Þórsarar leika á sama tíma í Vestmannaeyjum gegn ÍBV.
Upphitun fyrir knattspyrnusumarið er í Vikudegi í dag. Þar spá í spilin þeir Lárus Orri Sigurðsson þjálfari Þórs, Slobodan Milisic þjálfari KA, Ásmundur Arnarsson þjálfari Fjölnis og Þorvaldur Örlygsson þjálfari Fjarðabyggðar.
Í tilefni af fyrsta heimaleik KA í sumar efnir knattspyrnudeild KA til kynningarkvölds í KA-heimilinu nk. föstudagskvöld, 11. maí, kl. 21. Þar verður kynnt starfsemi knattspyrnudeildarinnar, meistaraflokksleikmenn kynntir og skrifað undir nýja samstarfssamninga. Boðið verður upp á léttar veitingar og eru allir knattspyrnuáhugamenn velkomnir.
Þórsarar eru með kynningardag með svipuðu sniði 17. maí nk. og hefst dagskráin kl. 14:00. Daginn eftir, föstudag, er svo fyrsti heimaleikur þeirra gegn einmitt Víkingi frá Ólafsvík. Á sama tíma leikur KA í Njarðvík.