Fyrsti heimaleikur KA í kvöld

KA leikur sinn fyrsta heimaleik í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld er liðið fær Gróttu í heimsókn kl. 18:00. Leikurinn fer reyndar fram á Þórsvelli, þar sem Akureyrarvöllur er ekki tilbúinn til notkunar. Þá sækir Þór Leikni R. heim og hefst leikurinn á Leiknisvelli í kvöld kl. 20:00. 

KA byrjaði tímabilið vel og vann Þrótt R. 2:1 á útivelli í fyrstu umferð sl. sunnudag, en á sama tíma tapaði Grótta 1:2 gegn ÍR í fyrsta leik. "Við ætlum okkur sigur í kvöld og það er mikilvægt að nýta heimavöllinn og fá sem flest stig þar," segir Steingrímur Örn Eiðsson aðstoðarþjálfari KA.

Þór byrjaði leiktíðina með 1:1 jafntefli gegn Fjölni á heimavelli. Þór var sterkari aðilinn í leiknum en vantaði allt bit í sóknarleikinn hjá sér og segir fyrirliði Þórs, Þorsteinn Ingason, að sitt lið þurfi að bæta úr því fyrir leikinn gegn Leikni í kvöld. "Okkur hefur oft gengið vel í Breiðholtinu en það er ljóst að við verðum að laga sóknarleikinn hjá okkur fyrir leikinn í kvöld," segir Þorsteinn.

Lengri viðtöl við þá Steingrím og Þorstein má lesa í nýjasta tölublaði Vikudags.

Nýjast