Fyrsta skemmtiferðaskipið sem heimsækir Akureyri á þessu sumri, lagðist að Oddeyrarbryggju í morgun. Skipið, sem er minni kantinum, eða tæplega 5.900 brúttótonn, heitir Arion og lagði í ferð sína frá Svíþjóð með um 320 farþega. Frá Svíþjóð var siglt til Færeyja, þaðan til Reykjavíkur, Ísafjarðar og Akureyrar. Skipið heldur frá Akureyri seinni partinn í dag áleiðis til Svalbarða. Þaðan verður siglt til Noregs áður en haldið verður til Svíþjóðar á ný. Alls tekur ferðin 18 daga, að sögn eins farþeganna, sem var á leið til skips á ný, eftir skoðunarferð um Akureyri. Næsta skemmtiferðaskip, Ventura, er svo væntanlegt til Akureyrar á laugardag. Það skip er mun stærra en Arion, eða rúm 116.000 brúttótonn og er áætlað að um borð séu um 2.500 farþegar. Stærsta skipið sem kemur til Akureyrar í sumar er 122.000 brúttótonn og heitir Celebrity Eclipse en það kemur tvisvar, í fyrra skiptið þann 12. júlí. Alls verða komur skemmtiferðaskipa til Akureyrar 65 talsins en síðasta skipið er væntanlegt 17. september. Sífellt stærri skemmtiferðaskip leggja leið sína til Akureyrar og er áætlað að farþegum muni fjölga um 35% í sumar, miðað við sumarið í fyrra. Þá komu tæplega 50.000 farþegar með skemmtiferðaskipum en í ár er gert ráð fyrir því að farþegafjöldinn verði í kringum 67-68 þúsund talsins.