Fyrsta plata Ásgeirs Ólafssonar Lie It's personal kom út í gær 10. október. Vikublaðið ákvað að grípa hann í stutt viðtal og spyrja út í plötuna.
Ásgeir, þú hefur gefið út bækur, sett upp leikrit og stjórnað hlaðvarpi, nú er það tónlistin?
Ég hef alltaf verið mikill tónlistaráhugamaður. Hlustað, stúderað, pælt og heyrt tónlist síðan ég kynntist Lionel Richie bara 5 ára gamall. Ég kann ekki á hljóðfæri en er að æfa mig dag hvern á hljóðfæri sem er röddin mín. Ég hef beitt henni á allskonar vettvangi síðan ég fæddist. Ég átti fullt af textum sem ég hafði skrifað, sem urðu að ljóðum sem svo urðu að lögum.
Það tók ekki langan tíma fyrir mig að finna hvaða tegund tónlistar yrði fyrir valinu. En það er raftónlist með rólegum yfirtón og hráum lo-fi pælingum.Hljómar kannski eins og ég hafi eitthvað stúderað þetta en nei svo er ekki. Ég bý til tónlistina mína í stúdíóinu heima noregi þar sem ég bý með fjölskyldunni minni. Þar er mac tölva, míkrófónn, mixer og forrit sem heitir dubler 2 frá fyrirtæki sem heitir Vochlea. Sem er mikil mildi fyrir mann eins og mig. Þetta er "midi" forrit sem tekur upp hljóðin sem koma út úr mér og svo vel ég hljóðfærið sem á að nota.
Gerir auðvitað sumt tónlistarfólk brjálað, en menn eins og mig mjög glaða. Svo bara verður eitthvað til. Núna er platan mín svo komin út og það er eiginlega pínu klikkað.
Hvað tók það þig langan tíma að gera plötuna?
Hún hefur tekið mig allt í allt um fjórtán mánuði. Fyrstu mánuðirnir fóru í að læra vel á forritið og svo var bara að skrifa og setja saman þessar laglínur og hljóðbúta sem komu. En platan er mér mjög persónuleg.
Ég kem að henni alveg sjálfur, þ.e. sem tónlistina, textana og hljóðheiminn og útsetningarnar.
Persónuleg?
Já. Góður vinur minn hvatti mig að skrifa mig úr erfiðum aðstæðum þar sem hann vissi að ég hefði gaman af því að skrifa. Hann bað mig að skrifa góðu stundirnar líka. Ég gerði það og alls konar textasull varð að ljóðum. Svo er platan útkoman. Hún er í raun um mig. Hver ég er og hef verið. Þess vegna ber hún þennan titil. Ég hef gengið í gegnum alls kyns maður.
Eins og við öll held ég, en ég hef kosið að vera opinn með mitt. Hætta þessari skömm að tala bara um þetta. Lífið er of stutt til þess að tala ekki. Enda er dagurinn í dag tilvalinn í útgáfu slíkrar plötu.
Ætlar þú að semja meira?
Ójá. Ég er nú þegar að semja meira. Ég tek öll bít, laglínur, melódíur upp sem koma til mín og set þau inn í forritið og geymi það og svo þegar ég gef mér tíma þá sest ég niður þar með minn tíma og sem tónlistina. Ég fæ allt of mikið til mín, hér og þar sem ég er staddur og gleymi fullt af þessu, en svo festist það sem á að fara eitthvað.
Ég hef alltaf verið tónlistarmaður held ég. Vegna þess að ef maður hefur líkama, þá er maður íþróttamaður og ef maður heyrir, er maður tónlistarmaður.
Hvað er í vændum? Við hverju má búast á næstu plötu?
Núna er það söngurinn sem ég einbeiti mér að. Ég ætla að gefa út plötu á íslensku næst. Syngja hana alla sjálfur. Hún verður tilraunakenndari en sú fyrri.
Ásgeir Ólafsson Lie
Tilraunakenndari?
Já, ég meina það að hún verður kannski aðeins frjálsari ef svo má segja en it´s Personal. Þar sem sú plata var og er mér svo kær og mér nærri. Hún verður áfram í rafheiminum en textarnir geta verið um allt frá sögu af litlu sandkorni, til fjalls.
Hvenær má búast við útgáfu?
Stefni á 17 mai.
Hefur þú fengið einhver viðbrögð?
Já, hér í Noregi er lag af plötunni í spilun á urørt, eda ósnertu samfélagi þar sem lög nýrra artista fá athygli hjá NRK. Annars er þetta verkefni núna frá og það næsta tekur við. Kosmósinn hefur tekið yfir.
Við óskum honum til hamingju með útgáfuna og mælum með að fólk legg ivið hlustir.
Plötuna má finna hér, (linkur á spotify) en hún er finnanleg á öllum tónlistarveitum.
Linkur á urørt
https://urort.p3.no/artist/asgeir-o
Linkur á plötuna:
https://open.spotify.com/album/34oXPm9UpaxtHucu9oP2pb?si=hgdimPVMSbCkMcvV8SzVhA