Ljósin á jólatrénu við Ráðhústorg verða tendruð laugardaginn 29. nóvember kl. 16 við hátíðlega athöfn á Jólatorginu.
Áður en hátíðardagskráin hefst leikur Lúðrasveit Akureyrar undir stjórn Sóleyjar Bjarkar Einarsdóttur létt jólalög fyrir gesti. Söngkonan Jónína Björt og Hallgrímur Jónas stíga svo á svið og flytja jólalög, Jóla Lóla og félagar úr leikhúsinu kíkja í heimsókn, jólasveinarnir mæta á svæðið og Barnakórar Akureyrarkirkju, undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur, syngja fyrir gesti. Erik Vilstrup Lorenzen, sendiherra Danmerkur, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, ávarpa gesti og í ár er það hin þriggja ára Amanda Schmidt Jensdóttir sem mun kveikja á jólatrénu.
Jólatorgið opnar kl. 15 og verður opið á laugardögum og sunnudögum frá 15-18 allar helgar fram að jólum. Á Jólatorginu eru skreytt jólahús með fjölbreyttum söluvarningi sem minna á jólin. „Nú opnum við Jólatorgið í annað sinn og það gleður okkur sérstaklega. Jólatorgið sló í gegn í fyrra og við höfum fundið fyrir enn meiri áhuga í ár, bæði frá þeim sem vilja taka þátt og frá gestum sem bíða spenntir eftir opnun. Það er eitthvað einstakt við að sjá miðbæinn fyllast af ljósi og fólki í notalegri jólastemningu í fallega miðbænum okkar,“ segir Elísabet Ögn Jóhannsdóttir, verkefnastjóri menningarmála hjá Akureyrarbæ.
Hægt er að fylgjast með dagskrá Jólatorgsins á vefsíðunni www.jolatorg.is
Frá þessu er sagt á akureyri.is