Uppistandið konur þurfa bara…. á Græna hattinum

Sóley Kristjáns og Auðbjörg Ólafs bjóða upp á uppistandið konur þurfa bara….á græna hattinum 27. nóv…
Sóley Kristjáns og Auðbjörg Ólafs bjóða upp á uppistandið konur þurfa bara….á græna hattinum 27. nóvember.

„Við getum lofað skemmtilegri kvöldstund,“ segir Auðbjörg Ólafsdóttir sem ásamt Sóleyju Kristjáns verður með glænýtt uppistand; konur þurfa bara… á Græna hattinum á fimmtudagskvöld í næstu viku, 27. nóvember. Eins og nafnið ef til vill gefur til kynna velta þær stöllur fyrir sér öllu því sem konur þurfa bara.

Auðbjörg segir að þær Sóley hafi komið norður í sumar með uppistandið „Af hverju fórum við ekki bara á gönguskíði?“ og það hafi fengið góðar viðtökur. „Við hlökkum til að koma norður aftur og nú með nýtt efni,“ segir hún og bætir við að boðið verði upp á óvænt atriði í sýningunni. Heimakona stígi á stokk og taki fyrstu skrefin í uppistandi. „Það er mjög gaman að hafa færi á að valdefla aðrar konur og gefa þeim rými á sviðinu. Ég held ég lofi ekki upp í ermina á mér þegar ég fullyrði að þetta verði mjög skemmtilegt hjá okkur, góð stemmning sem engan svíkur.“

Mætum með glænýtt efni og meiri reynslu

Þær Auðbjörg og Sóley stigu sín fyrstu skref í uppistand nýlega, Sóley í fyrra og Auðbjörg fyrr á þessu ári. Sóley var með uppistandi „Að finna taktinn: Miðaldra uppistand“ og Auðbjörg með „Ég elska þig alheimur.“ Þegar þessar fyndnu og einlægu miðaldra fjölskyldukonur fréttu hvor af annarri ákváðu þær að sameina krafta sína og úr varð sýningin um gönguskíðin sem sýnd hefur verið víða um land og vakið verðskuldaða athygli.

„Nú mætum við með meiri reynslu í farteskinu en erum enn að fjalla um það stórkostlega, hversdagslega og fyndna sem drífur á daga miðaldra fjölskyldu- og framakvenna sem þurfa bara að láta allt ganga upp,“ segir Auðbjörg.

Þær stöllur skrifuðu uppistandið í samvinnu við Dóru Jóhannsdóttur sem einnig er kómískur dramatúrg sýningarinnar (er til íslenskt orð yfir kómískur dramatúrg?)

Nýjast