Þú hefur unnið 100 milljónir, eða hvað?

Gagnrýnin hugsun og heilbrigð tortryggni
Gagnrýnin hugsun og heilbrigð tortryggni

Hættan á því að lenda í netsvikum hefur sjaldan, verið jafn mikil og nú. Netverslun verður sífellt vinsælli enda er hún einstaklega þægileg, þar sem neytandinn þarf rétt svo að lyfta litla fingri til þess að fá vörurnar sínar sendar heim að dyrum.

Helsta vertíð netsvikara

Netverslun er sérstaklega vinsæl nú í nóvember, þegar líða tekur að jólum og tilboðaflóðið dynur á okkur úr öllum áttum. Þessir tilboðsdagar eru orðnir fastir liðir í kauphegðun margra, sem hugsa sér gott til glóðarinnar og ætla að stökkva á bestu tilboðin og mestu afslættina. En stundum er gott að flýta sér hægt, því þetta er hátíð netsvikara.

Einkenni netsvika

Netsvik geta verið afar mismunandi, en bera mörg sambærileg einkenni. Svikarar reyna að komast yfir lykilorð, aðgangskóða og korta- eða bankaupplýsingar þess sem svikin beinast að. Þeir nýta tæknina vel og eru oft mjög trúverðugir. Oft reyna svikarar að útbúa svikasíður sem líkjast vefsíðum þekktra fyrirtækja, svo sem netverslana, sendingarþjónusta og jafnvel hins opinbera.

Dæmi um ólíkar aðferðir svikara eru forrit sem eru hönnuð til að komast inn í símann þinn eða tölvupóstar um óþekkta reikninga sem merktir eru „áríðandi“ og skapa þannig pressu. Einnig undarlegar auglýsingar um að þú hafir unnið hitt eða þetta, jafnvel án þess að taka þátt. Allt eru þetta klassísk dæmi um netsvik, sem látin eru líta út fyrir að vera eitthvað annað.

Gagnrýnin hugsun og heilbrigð tortryggni

Ein besta vörn almennings gegn slíkum svikum, sem oft birtast í gylliboðum um mikla afslætti eða tilboð, sem hljóma hreinlega of góð til að vera sönn, eru gagnrýnin hugsun og heilbrigð tortryggni. Staðreyndin er enda sú að ekki allir á netinu eru vinir manns og mikilvægt að hafa í huga að ekki er allt gull sem glóir.

Netsvikapróf SFF

Til þess að efla vitund fólks um netsvik hafa Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu útbúið sérstakt netsvikapróf, sem hægt er að nálgast á vefsíðu samtakanna, sff.is. Þar gefst fólki kostur á að láta reyna á þekkingu sína, þannig að það sjái hvar það stendur gagnvart mögulegum svikatilraunum.

Um leið og þú klárar netsvikapróf SFF geturðu séð hverju þú svaraðir rétt og hverju ekki. Niðurstöður úr prófinu hingað til benda til þess að fólk sé almennt nokkuð vel með á nótunum gagnvart netsvikum, sem er fagnaðarefni!

Staðreyndin er engu að síður sú að það þarf aðeins að falla fyrir einni netsvikatilraun til þess að skaðinn sé skeður. Það að lenda í netsvikum er próf sem getur orðið dýrt að falla á og þar getur eitt rangt svar dugað til að falla.

Á heimasíðu SFF, www.sff.is er að finna ýmis heilræði og leiðbeiningar er snúa að netöryggi og kjörið að spreyta sig á netsvikaprófi SFF.

Smelltu á slóðina hér fyrir neðan og taktu netsvikaprófið

https://www.sff.is/frettir-og-greinar/ekki-lata-nappa-af-ther-i-november---taktu-netsvikaprof-sff

Nýjast