„Sögufélag Eyfirðinga var stofnað árið 1971. Síðan þá hafa eingöngu karlar setið í aðalstjórn félagsins. Karlremba? Kannski. Þó ekki meðvituð og alls ekki staðfest í lögum félagsins. En ræðum ekki frekar ástæður þessa heldur hitt að á dögunum settist kona, Rannveig Karlsdóttir, í embætti ritara félagsins,“ segir í tilkynningu frá Sögufélagi Eyfirðinga.
Rannveig lauk stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri, B.Ed. prófi frá Háskólanum á Akureyri og meistaragráðu í þjóðfræði frá Háskóla Íslands. Rannveig kenndi við Gagnfræðaskóla Akureyrar og síðar Brekkuskóla og Oddeyrarskóla, samhliða þýðingum. Hún starfar nú á bókasafni og við kennslu í Verkmenntaskólanum á Akureyri.
„Það er kannski tilviljun, en gleðileg, að á sama tíma og fyrsta konan tekur sæti í aðalstjórn Sögufélags Eyfirðinga færa Súlur, rit félagsins, og Björn Teitsson ritstjóri okkur viðtöl við tvær stórmerkar konur. Sú fyrri er hin aldna heiðurskona Ingibjörg Bjarnadóttir í Gnúpufelli. Viðtalið við hana var í Súlum 2014 en ritið kemur út einu sinni á ári. Hið seinna á Birgir Sveinbjörnsson við Mývetninginn og þingkonuna Málmfríði Sigurðardóttur en hún er eins og alþjóð veit – ekki síst þó Eyfirðingar – fjölfróð og segir skemmtilega frá.
Fréttin af síðara viðtalinu – við Málmfríði – er „skúbb“ á máli fjölmiðlanna því það birtist ekki fyrr en með vorinu þegar Súlur 2016 koma á markað. En þess má geta að ritið er á boðstólum í bókabúð Eymundsson á Akureyri. Um leið og stjórn Sögufélags Eyfirðinga býður Rannveigu Karlsdóttur velkomna til starfa viljum við skora á alla er unna þjóðlegum fróðleik og vilja stuðla að varðveislu sögunnar að gerast félagsmenn, síminn er 462-4024, eða netfang, jonhjalta@simnet.is.“