Fyrsta konan í stjórn Sögufélags Eyfirðinga

Fráfarandi ritari Sögufélags Eyfirðinga, Bernharð Haraldsson, fyrrverandi skólameistari sem nú flyst…
Fráfarandi ritari Sögufélags Eyfirðinga, Bernharð Haraldsson, fyrrverandi skólameistari sem nú flyst búferlum til Reykjavíkur, afhendir Rannveigu Karlsdóttur fundarbók félagsins.

„Sögufélag Eyfirðinga var stofnað árið 1971. Síðan þá hafa eingöngu karlar setið í aðalstjórn félagsins. Karlremba? Kannski. Þó ekki meðvituð og alls ekki staðfest í lögum félagsins. En ræðum ekki frekar ástæður þessa heldur hitt að á dögunum settist kona, Rannveig Karlsdóttir,  í embætti ritara félagsins,“ segir í tilkynningu frá Sögufélagi Eyfirðinga.

Rannveig lauk stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri, B.Ed. prófi frá Háskólanum á Akureyri og meistaragráðu í þjóðfræði frá Háskóla Íslands. Rannveig kenndi við Gagnfræðaskóla Akureyrar og síðar Brekkuskóla og Oddeyrarskóla, samhliða þýðingum. Hún starfar nú á bókasafni og við kennslu í Verkmenntaskólanum á Akureyri.

„Það er kannski tilviljun, en gleðileg, að á sama tíma og fyrsta konan tekur sæti í aðalstjórn Sögufélags Eyfirðinga færa Súlur, rit félagsins, og Björn Teitsson ritstjóri okkur viðtöl við tvær stórmerkar konur. Sú fyrri er hin aldna heiðurskona Ingibjörg Bjarnadóttir í Gnúpufelli. Viðtalið við hana var í Súlum 2014 en ritið kemur út einu sinni á ári. Hið seinna á Birgir Sveinbjörnsson við Mývetninginn og þingkonuna Málmfríði Sigurðardóttur en hún er eins og alþjóð veit – ekki síst þó Eyfirðingar – fjölfróð og segir skemmtilega frá.

Fréttin af síðara viðtalinu – við Málmfríði – er „skúbb“ á máli fjölmiðlanna því það birtist ekki fyrr en með vorinu þegar Súlur 2016 koma á markað. En þess má geta að ritið er á boðstólum í bókabúð Eymundsson á Akureyri. Um leið og stjórn Sögufélags Eyfirðinga býður Rannveigu Karlsdóttur velkomna til starfa viljum við skora á alla er unna þjóðlegum fróðleik og vilja stuðla að varðveislu sögunnar að gerast félagsmenn, síminn er 462-4024, eða netfang, jonhjalta@simnet.is.“

Nýjast