Starfsemi Norðanflugs ehf., félags um fraktflug frá Akureyri til meginlands Evrópu, er formlega hafin. Fyrsta fraktflugið á vegum félagsins verður 3. júní nk. en þá verður flogið með vörur frá Akureyri til Oostende í Belgíu. Norðanflug mun fljúga þrisvar í viku til að byrja með, á sunnudögum, þriðjudögum og fimmtudögum. Áfangastaðurinn er Oostende í Belgíu sem fyrr segir, en sú borg varð fyrir valinu vegna góðrar legu með tilliti til dreifingar á fiski innan Evrópu. Þaðan er einungis um tveggja stunda akstur til Boulogne sur Mer í Frakklandi, sem er áfangastaður stærsta hlutar þeirra fersku fiskflaka sem fara með flugi frá Íslandi. Með þessu styttist flutningstími fyrir ferskan fisk sem unninn er á Norðausturlandi, um heilan dag þannig að hann kemur enn ferskari en áður til viðskiptavina á meginlandi Evrópu. Norðanflug verður með aðsetur í Oddeyrarskála á Akureyri. Nýráðinn framkvæmdastjóri félagsins er Unndór Jónsson en hann starfaði áður á flugrekstrarsviði flugfélagsins Atlanta. Stofnendur Norðanflugs ehf. eru
Samherji hf ., Hf.
Eimskipafélag Íslands og
SAGA Capital Fjárfestingarbanki.
„Það er von aðstandenda Norðanflugs að fiskvinnslur og ekki síður innflytjendur á Norður- og Austurlandi taki þessu framtaki vel og nýti sér þá þjónustu sem við bjóðum upp á. Verkefni af þessu tagi byggir ekki síst á því að heimamenn styðji það," segir Unndór. Hann segir þörfina fyrir fraktflug með ferskan fisk af Norður- og Austurlandi til meginlands Evrópu mikla og vaxandi. Hins vegar eigi eftir að koma í ljós hversu margir nýti sér þann möguleika að flytja vörur frá Evrópu beint til Akureyrar. „Við höfum orðið vör við mikinn áhuga á þessu verkefni. Vonandi verður reyndin sú að Norðanflug fjölgi ferðum en það ræðst fyrst og fremst af viðtökum markaðarins," segir Unndór ennfremur.