Akureyrarbær varð í gær fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að hljóta viðurkenningu Barnvænna sveitarfélaga. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, afhentu Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri, viðurkenninguna við hátíðlega athöfn á Akureyri.
Í viðurkenningunni felast þakkir til sveitarfélagsins fyrir að hafa unnið markvisst að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stjórnsýslu og starfsemi bæjarins, með hagsmuni allra barna og ungmenna sveitarfélagsins að leiðarljósi. Akureyrarbær er nú kominn í hóp valinna sveitarfélaga um allan heim, sem leggja Barnasáttmálann til grundvallar öllu sínu starfi. Viðurkenninguna hlýtur sveitarfélagið til þriggja ára og á það kost á að endurnýja hana að þeim tíma liðnum.
„Með þátttöku í verkefninu hefur Akureyrarbær rutt brautina fyrir önnur sveitarfélög á Íslandi og tekið markvissan þátt í þróun verkefnisins á Íslandi frá árinu 2016. Mikill áhugi er meðal sveitarfélaga á að taka þátt í verkefninu, en samtals hefja níu þeirra þátttöku á þessu ári og tólf á því næsta,“ segir í tilkynningu.