Menntamálaráðherra friðaði húsið í lok síðastliðins árs, en KEA er nú eigandi þess. Félagarnir hafa reynt að sækja bætur til ríkisins vegna þess kostnaðar sem þeir höfðu lagt út í vegna undirbúnings og fyrirhugaðra framkvæmda á lóðinni. "Við erum bara að bíða eftir svari, við settum fram kröfu í mars og höfum í rauninni beðið síðan þá," segir Vignir. Málið fór til ríkislögmanns og síðan aftur til menntamálaráðuneytis, sem vísaði því svo á ný til ríkislögmanns.
"Þetta hefur tekið óhemju langan tíma, vissulega náðum við að selja húsið, en það fé sem fékkst við söluna er engann veginn nóg upp í þann kostnað sem við höfðum lagt í undirbúning vegna þeirra framkvæmda sem til stóð að fara út í," segir Vignir. Hann segir að ein leið sem nú sé fær sé að fara með málið fyrir dómstóla. "Ég held að við þurfum þess, en það er ekki alveg ljóst nú, vonandi fáum við svar innan skamms og þá skýrist málið," segir hann.