Fyrirliði KA í blaki slasaðist illa í hörðum árekstri

Hilmar Sigurjónsson fyrirliði KA í blaki slasaðist illa í hörðum árekstri norðan við Skagastrandarafleggjarann á dögunum. Hann var þá á leið norður til Akureyrar ásamt  Jóhanni bróður sínum, sem slapp nánast ómeiddur. Hilmar fótbrotnaði illa á hægra fæti, þar sem fóturinn lafði við sköflunginn, hann brotnaði á hægri framhandlegg og var auk þess blár marinn og skorinn.  

Frá þessu slysi er greint á heimasíðu KA og þar segir Hilmar um áreksturinn: ,,Ég er ekki hjátrúarfullur en þetta virðist hafa átt að gerast. Við stoppuðum í sjoppunni á Blönduósi og lögðum svo af stað áfram til Akureyrar. Við rákumst strax á stráka sem Jóhann kannaðist við og stoppuðum til að spjalla við þá. Loks þegar við vorum komnir framhjá Skagastrandarafleggjaranum þá bara fengum við Land Cruser framan á okkur."

Jóhann var í símanum að tala við mömmu þeirra bræðranna og lenti hún því í að hlusta á áreksturinn. Henni leið hræðilega næsta kortérið í mikilli óvissu en svo kom í ljós að menn voru ekki í lífshættu. Jóhann komst út úr bílnum, nánast óskaddaður en Hilmar sat fastur í flakinu og áttaði sig á að fóturinn rétt hékk saman. Flytja átti Hilmar suður en hann vildi koma norður með bróður sínum, segir ennfremur á heimasíðu KA.

Nýjast