“Fyrir mömmu”

"Fyrir mömmu" er yfirskrift stórtónleika, sem haldnir verða í Íþróttahöllinni á Akureyri sunnudaginn 9. september nk. Kristján Jóhannsson óperusöngvari verður þar í aðalhlutverkinu. Hann óskaði eftir því að tónleikarnir yrðu til heiðurs móður hans, Fanneyju Oddgeirsdóttur, sem verður níræð 14. september. "Ég hef alltaf verið mikill mömmustrákur," segir Kristján og bætir við: "Í raun erum við að lofsyngja allar mæður, því móðurhlýjan er hverjum manni dýrmæt." Kristján hefur ekki sungið í heimabæ sínum síðan vorið 2003, þegar sálumessa Verdis var flutt í Íþróttahöllinni."Það verður gaman að koma heim og syngja fyrir sitt heimafólk," segir Kristján, sem hefur haft mikið að gera að undanförnu við söng og söngkennslu. Kristján verður ekki einn á ferð, því með honum koma Sofia Mitropoulos sópransöngkona og Corrado Alessandro Cappitta barintonsöngvari. Sofia er grísk söngkona sem hefur heillað Ítala að undanförnu með stórfenglegum söng og heillandi framkomu. "Við Sofia erum með sama umboðsmann í Milano og þar heyrði ég í henni fyrst," segir Kristján. Hann segist strax hafa hrifist af söng hennar. Hún hafi óvenju stóra og mikla rödd, sem hún geti beitt hvort heldur sem er, með lyriskum eða dramatískum hætti. " Og Sofia er ekki bara góður söngvari, hún er mikill listamaður sem á auðvelt með að hrífa áheyrendur upp í hæstu hæðir með sínum sterku tilfinningum," sagði Kristján. Corrado og Kristján kynntust í Catagna á Sikiley, þar sem Kristján var að syngja Radames í Aidu Verdis. Þar sungu þeir saman á konsert og úr varð samstarf sem leiddi til þess að Kristján tók Corrado í nám. "Hann er í raun fyrsti opinberi nemandinn minn og þótt ég segi sjálfur frá hefur hann tekið ótrúlegum framförum, enda er hann kappsfullur og með mikinn metnað. Söngvari sem á eftir að láta mikið að sér kveða á komandi árum," segir Kristján.

Kristján lofar eftirminnilegum tónleikum, ekki síst vegna þess að Guðmundur Óli Gunnarsson heldur utan um tónlistarflutninginn með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. "Hljómsveitin er í stöðugri sókn og er eitt gróskumesta blómið í menningarlífi á Norðurlandi. Ég hefur áður unnið með Guðmundi Óla og hlakka til samstarfsins," segir Kristján Jóhannsson.

 

Nýjast