Þegar starfa 5 menn hjá Norðurskel. Víðir segir að eftir 8 ára baráttu við að koma kræklingarækt á fót hér við land sjái menn nú árangur erfiðis síns. „Og það er góð tilfinning, ætli megi ekki segja að maður hafi slitið hné úr nokkrum buxum á liðnum árum en ætti að geta gengið uppréttur núna," segir Víðir. Innan skammst hefst fullvinnsla á skel í neytendapakkningar í Hrísey og er félagið þegar komið með samning við verslunarkeðju í Belgíu, sem einnig er með verslanir í Lúxemborg og Þýskalandi. „Þeir vilja fá meira en við getum framleitt, en þetta er mjög góð byrjun og verðið er gott. Það er greinileg vöntun á þessari vöru í Evrópu," segir Víðir enda hafi bæði Holland og Danmörk dottið út nýverið vegna mengunar við strendur landanna.
Víðir segir að mikil tækifæri liggi í kræklingarækt hér við land, á svæði allt frá Hvalfirði, vestur og norður um og allt austur á Djúpavog. Ýmsir séu þegar byrjaðir hér og þar í smáum stíl, en aðstæður til ræktunar eru óvíða jafngóðar og hér á landi segir Víðir. Framleiðslugeta vinnslunnar í Hrísey er um 3000 tonn og segir Víðir að til að byrja með sé ætlunin að vinna allt hráefni í landinu þar, enda þegar búið að koma upp tækjum og búnaði. Vinnslan er til húsa þar sem KEA var í eina tíð með saltfiskverkun. Félagið lét smíða tvo nýja báta á síðastliðnu ári og segir Víðir að vissulega finni menn fyrir efnahagsþrengingum hjá Norðurskel eins og fleiri fyrirtækjum, en á móti komi að nú innan skamms muni félagið hefja sölu á vörum sínum í evrum og það sé jákvætt. „Ég er mjög ánægður með árangurinn á síðasta ári og bjartsýnn á gott gengi fyrirtækisins nú í ár," segir Víðir.