Í lok árs 2011 var gert þríhliða samkomulag milli Norðurþings, Ríkissjóðs og Síldarvinnslunnar hf. um niðurrif fasteigna, hreinsun, frágang og förgun úrgangs á Síldarverksmiðjulóð á Raufarhöfn. Þá voru fasteignirnar í niðurníðslu og talin stafa af þeim slysahætta. Norðurþing eignaðist síðan fasteignirnar í lok árs 2013. Á þeim árum sem eru liðin var leitað tilboða í niðurrif án þess að þeim væri tekið vegna kostnaðar. Einnig var leitað eftir sölu á fasteignunum án þess að samkomulag næðist um kaup. Byggingarnar eru í afar slæmu ástandi, þök eru ryðguð og þakplötur víða lausar sem skapar fokhættu. Greint er frá þessu á vef Norðurþings.
Í maí sl. gerði Hringrás ehf. tilboð í niðurrif hluta húseignanna, þ.e. mjölhúsið og verksmiðjuhúsið, sjá nánar í svörtum ramma á meðfylgjandi mynd. Skipulags- og framkvæmdaráð vísaði málinu til umsagnar í hverfisráði Raufarhafnar og gaf, að fenginni umsögn hverfisráðs, framkvæmdaleyfi fyrir niðurrifi húsanna í samræmi við tilboð Hringrásar ehf., staðfest í sveitarstjórn 19. júní sl.
Nú hefur verið birt áskorun til þeirra sem eiga tæki, vélar og annan búnað í verksmiðjunni og mjölhúsinu á Raufarhöfn að fjarlægja allt slíkt úr byggingunum fyrir 28. júlí nk. en til stendur að hefja niðurrif bygginganna í ágúst. Þar sem Mjölhúsið hefur þjónað sem ígildi svæðis fyrir geymslugáma undanfarin ár hyggst skipulags- og umhverfissvið láta útbúa slíkt svæði á Raufarhöfn líkt og fyrirfinnst á Húsavík og Kópaskeri. Staðsetning á gámasvæði er ekki ákveðin en því verður fundinn staður eftir eðlilegu ferli í gegnum skipulags- og framkvæmdaráð.
,,Með niðurrifi bygginganna léttir verulega á ásýnd hafnarsvæðisins á Raufarhöfn og komið er í veg fyrir slysahættu. Efninu sem til fellur við niðurrif verður komið í endurvinnslu eða fargað á viðeigandi hátt. Gólfplöturnar verða ekki teknar svo þarna stendur eftir grunnur sem getur vonandi nýst til uppbyggingar atvinnutækifæra í framtíðinni," segir í tilkynningunni.