Dýrey flutti starfsemi að Baldursnesi 2

Dýrey er nú til húsa í rúmgóðu húsnæði við Baldursnes 2  Myndir Frá Dýrey
Dýrey er nú til húsa í rúmgóðu húsnæði við Baldursnes 2 Myndir Frá Dýrey

„Þörfin fyrir að stækka við okkur húsnæði var löngu tímabær. Eftir mikla leit og vangaveltur varð húsnæði við Baldursnes 2 fyrir valinu, enda hentar það okkar starfsemi einkar vel. Þar getum við sameinað spítala fyrir bæði gæludýr og stór dýr. Við erum hæst ánægð með flutninginn í nýtt húsnæði sem og okkar viðskiptavinir,“ segir Helga Berglind Ragnarsdóttir dýralæknir og einn eigandi Dýralæknaþjónustu Eyjafjarðar, Dýrey.

Alls eru 7 dýralæknar starfandi hjá Dýrey auk fjögurra aðstoðarmanna. Svæðið sem Dýrey sinnir er Eyjafjörður, frá Hörgársveit út með Tröllaskaga, Þingeyjarsýslur en komið er með dýr af öllu Norðurlandi og eins frá Austurlandi til meðhöndlunar hjá Dýrey.

Starfsemin fyrir gæludýrin hefur um langt árabil verið til húsa í Kaupangi en farið var að þrengja að henni þar. Dýrey rekur sögu sína til ársins 1998, sem er stofnár félagsins. Á þeim tíma fólst vinna dýralækna mestmegnis í að sinna kúm, hestum og sauðfé í sveitum. „Smám saman jókst þörfin á að sinna gæludýrum og árið 2003 opnuðum við dýralæknastofu með lítilli verslun í Kaupangi. Til að byrja með var einungis opið í tvo tíma á dag, en þörfin fór vaxandi eftir því sem á leið og undanfarin 10 ár höfum við verið með opna gæludýra móttöku allan daginn,“ segir Helga Berglind.

Umfangsmiklar framkvæmdir við breytingar

Hún segir að ráðist hafi verið í miklar framkvæmdir á húsnæðinu að Baldursnesi 2,svo það hentaði starfseminni . „Við náðum að byggja upp vel útbúinn spítala þar sem eru stofur fyrir aðgerðir, tannlækningar, rannsóknir og almennar aðgerðir en að auki höfum við nokkur móttöku herbergi. Það fór mikil vinna í að hanna og breyta og byggja upp en við erum mjög ánægðar með útkomuna,“ segir Helga Berglind en alls tóku endurbætur á húsnæði um 3 mánuði. Það hefði aldrei gengið upp, bætir hún við, nema fyrir ómetanlega aðstoð frá fjölskyldum þeirra sem að Dýrey standa. „Við vorum líka með einstaklega góða iðnaðarmenn sem leystu úr ótrúlegustu hlutum fyrir okkur. Við kunnum öllum sem þátt tóku bestu þakkir fyrir hjálpina.

Aðstaðan í nýja húsnæðinu við Baldursnes sé mjög góð, m.a. skoðunaraðstaða, aðstaða til að greina og meðhöndla sjúkdóma, blóðgreiningu, ómskoðanir, röntgenmyndatökur og lasermeðhöndlun svo eitthvað sé nefnt.

Við flutning í rúmbetra húsnæði hefur úrvalið í versluninni aukist til muna. Þar á meðal er fjölbreytt úrval af fóðri, bætiefnum og sjampóum sem henta bæði þeim sem þurfa á sérstakri meðferð að halda vegna sjúkdóma og sem virka fyrirbyggjandi.

Gæludýrin hluti af fjölskyldunni

Helga Berglind segir gæludýraeign hafa aukist mjög síðastliðin ár, margar fjölskyldur eigi einhver gæludýr og jafnvel fleiri en eitt. Hundar og kettir eru algengustu tegundirnar sem komið er með en einnig má nefna fugla, naggrísi og hamstra. „Gæludýr eru orðin mjög stór hluti fjölskyldunnar og því er hugsað um þau í takt við það. Það gerir að verkum að heilsa þeirra skiptir miklu máli fyrir eigendur, þeir eru meðvitaðri um að huga vel að heilsu dýranna, bæði hvað varðar fyrirbyggjandi aðgerðir og eins meðhöndlun ef eitthvað er. Við ráðleggjum öllum að koma með dýrin sín í árlega heilsufarsskoðun. Þar geta komið í ljós ýmsir kvillar sem eigendur taka ef til vill ekki eftir eða þá spurningar varðandi dýrin, m.a. varðandi holdafar, tannheilsu, stirðleika og annað,“ segir hún.

Kýr, kindur og hestar

Dýralæknar fara einnig út um sveitir til að sinna sínum skjólstæðingum, þar sem kýr, kindur og hestar eru helstu viðfangsefnin. Helga Berglind segir að varðandi kýr sé m.a. sé verið að meðhöndla júgurbólgu, súrdoða og aðra efnaskiptasjúkdóma, sem og frjósemisvandamála ásamt því að ráðleggja varðandi almennt heilsufar kúnna.

Vinna við sauðfé sé árstíðabundin, tengist einkum sauðburði að vori og síðan þurfi að bólusetja ásetninginn þegar búið sé að taka kindur inn að hausti.

Fjölbreytileg meðhöndlun er varðandi hesta, þar sem þeir eru allt frá því að vera gæludýr í að vera haldið í stóði. „Við erum oft og tíðum að fá þá til okkar, fara í hesthúsin eða í sveitirnar þar sem þeir eru,“ Meðal þess sem verið er að fást við er meðhöndlun á sárum, raspanir, frjósemisvandamál, heltisgreiningar og ýmsir sjúkdómar.

 

 

Nýjast