„Við verðum betur í stakk búinn til að sækja fram, að auka okkar starfsemi og efla hana,“ segir Jón Ingvi Árnason sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Höfðhverfinga. Stjórnir Sparisjóðs Höfðhverfinga hf. og Sparisjóðs Strandamanna hf. hafa undirritað samrunaáætlun um sameingingu sjóðanna og tekur hún mið af stöðu sjóðanna í upphafi árs. Sameinaður sparisjóður fær nafni Smári sparisjóður en verður áfram markaðsettur undir merkjum Sparisjóðanna.
Samhliða samrunaáætluninni voru undirritaðir samningar við KEA sem tryggja sameinuðum sjóði aukið hlutafé til vaxtar en það er eitt meginmarkmiða með sameiningu sjóðanna. KEA á 49,9% eignarhlut í Sparisjóði Höfðhverfinga hf. og verði samningar þess við sameinaðan sparisjóð nýttir mun KEA eiga allt að 50% eignarhlut í sameinuðum sjóði.
Traust fjárhagsstaða
Fjárhagsstaða sameinaðs sjóðs verður mjög traust, sjóðurinn verður með hátt eiginfjárhlutfall og sterka lausafjárstöðu og því vel í stakk búinn til þess að stækka efnahagsreikning sinn töluvert á næstu misserum. Sjóðurinn mun leggja ríka áherslu á að þjónusta vel sín starfssvæði í Eyjafirði og á Ströndum líkt og þeir sjóðir sem eru að sameinast hafa gert frá upphafi. Samtals eiga sjóðirnir 280 ára samfellda rekstrarsögu.
Sameining sjóðanna býður nú samþykkis hluthafa og Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Jón Ingvi segir að hluthafafundir sjóðanna þar sem samrunaáætlunin verður til afgreiðslu verða haldnir síðsumars. Þá fái Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands málið til afgreiðslu en að því búnu taki sameining við, liggi samþykki fyrir. „Við horfum til þess að hún gangi í gegn á komandi hausti,“ segir hann.
Farsælt samstarf skilar árangri
Jón Ingvi segir að sparisjóðir í landinu verði í kjölfar sameiningar þrír, auk Smára sparisjóðs, Sparisjóður Þingeyinga og Sparisjóður Austurlands. Þeir séu af svipaðri stærðargráðu og hafa átt í góðu samstarfi um árin. „Við eigum ekki von á öðru en að svo verði áfram, við störfum saman undir SÍSP, Samband íslenskra sparisjóða og það samstarf hefur skilað sparisjóðunum miklum ávinningi,“ segir hann. Nefnir m.a. í því sambandi, að sjóðirnir hafi
starfað saman við þróun upplýsingatækni, innri ferla og kynningarstarfsemi. Það hefur leitt af sér svo dæmi sé tekið, betri og notendavænni heimabanka og heimabankaappi. „Við höfum séð margvíslegar framfarir með samvinnu sjóðanna, þar hefur náðst umtalsverður árangur sem er til hagsbóta fyrir þá og viðskiptavini þeirra og ég vænti þess að framhald verði á samvinnu sparisjóðanna í landinu.“
Sækja fram og efla starfsemina
Jón Ingvi segir að starfsstöðvar Smára sparisjóðs verði þrjár, á Hólmavík, Grenivík og Akureyri. Mannauður innan sjóðanna sé mikill og fyrirhugað sé að sækja fram og efla starfsemi. „Okkar viðskiptamódel hefur verið einfalt, við einbeitum okkur að inn- og útlánum til einstaklinga og fyrirtækja og við veitum alla almenna viðskiptabankaþjónustu. Öflugri sjóður hefur færi til sóknar og við hyggjumst nýta það með okkar góða starfsfólki. Þar horfum við m.a. til fyrirtækja sem við höfum nú færi á að þjónusta betur í krafti stærðar,“ segir hann og bætir við að sparisjóðir hafi ávallt notið velvilja meðal landsmanna og margir sem vilji beina sínum viðskiptum til þeirra. „Það kunna margir því vel að við veitum persónulega þjónustu og boðleiðir hjá okkur eru stuttar.“
Sparisjóðir eru keimlíkir og starfa eftir sömu grunngildum, hafa svipað viðskiptalíkan og vöruframboð. „Mér vitanlega eru ekki fleiri sameiningar fyrirhugaðar meðal sparisjóða sem stendur en ef þessi gengur vel er ekki ólíklegt að mínu mati að farið verði að skoða fýsileika þess að sameina fleiri sjóði til framtíðar.“
Nýtt merki sameinaðs sparisjóðs, Smári, sparisjóður.