Full ástæða til að endurskoða aðferðir við hálkuvarnir

Bæjarráð Akureyrar telur fulla ástæðu til að endurskoða aðferðir við hálkuvarnir í bænum í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið um áhrif þeirra aðferða sem nú eru notaðar á svifryksmengun. Málið var til umræðu á fundi bæjarráðs í gær, þar sem m.a. voru teknar fyrir fundagerðir umhverfisnefndar og framkvæmdaráðs. Umhverfisnefnd hefur fjallað um svifryk og hálkuvarnir. Fyrir liggur að semja nýjar reglur um hálkuvarnir. Ljóst er að þrátt fyrir ýmsar tilraunir hefur okkur ekki tekist að koma böndum á svifryk og því nauðsynlegt að hyggja að róttækari breytingum. Sandburður á götur bæjarins hefur líklega mjög afgerandi áhrif á svifryksmyndun og því telur umhverfisnefnd nauðsynlegt að stemma stigu við slíku og leita nýrra leiða.
Nefndin vísaði málinu til bæjarráðs og framkvæmdaráðs til umfjöllunar og óskaði umsagnar þeirra áður en lokið verður við tillögur umhverfisnefndar í málefnum hálkuvarna á Akureyri. Að fengnum umsögnum mun nefndin leggja fram tillögur um hálkuvarnir á götum og gangstígum fyrir bæjarstjórn. Þessu verkefni skal lokið fyrir næsta haust eða nánar tiltekið fyrir 15. september nk.
Í bókun framkvæmdaráðs kemur fram að ráðið telur mikilvægt að dregið sé úr sandburði sem hálkuvörn þar sem hann hefur líklega afgerandi áhrif á myndun svifryks og að leitað verði nýrra leiða varðandi hálkuvarnir sem leitt geta til markvissrar minnkunar þess. Ráðið telur rétt að haldið verði áfram með prófanir með notkun salts.

Nýjast