Fremur kalt var á landinu í júlí miðað við það sem verið hefur á öldinni, ýmist sá næstkaldastur eða þriðjikaldastur síðustu 20 árin. Miðað við síðustu tíu ár voru hitavik jákvæð á örfáum stöðvum á Suðausturlandi, mest +0,4 stig á Ingólfshöfða.
Að tiltölu var einna hlýjast um landið suðaustanvert, en hvað kaldast um landið norðanvert og norðaustanvert þar sem mánuðurinn var allvíða kaldari en júní. Þrátt fyrir þetta var tíð í aðalatriðum hagstæð. Vindur og úrkoma voru víðast nærri meðallagi.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 24,8 stig á Egilsstaðaflugvelli 12. júlí. Mest frost í mánuðinum mældist -2,0 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 1. Júlí og í Miðfjarðarnesi þann 3.júlí. Á stöðinni á Dyngjujökli (þar fara þó ekki fram staðlaðar mælingar) fór frostið mest -9,5 stig þann 25. Ekki hefur sést meira frost á hitamæli á landinu í júlí. Frostnætur urðu alls 13 í mánuðinum. Er það óvenjulegt í júlí, en hins vegar var það aðeins á fáum stöðvum í senn, í ýmsum landshlutum. Júlílágmarkshitamet voru sett á allmörgum stöðvum.
Sólskinsstundir yfir meðallagi
Á Akureyri var meðalhitinn 10,1 stig, sem er -0,5 stigum neðan meðallags áranna 1961 til 1990, en -1,3 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Úrkoman mældist 35,3 mm og er það rétt ofan meðallags áranna 1961 til 1990. Sólskinsstundir á Akureyri voru 187,8 og er það 29 stundum fleiri en í meðalári.
Mðalhiti á Akureyri það sem af er ársins, þ.e. frá janúar og til loka júlí var 4,1 stig. Það er 1,0 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára
Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofu um tíðarfar í júlí.