Á Akureyri býr og starfar gott fólk í samfélagi sem er að flestu leyti til fyrirmyndar. Með samhentu átaki gerum við það sem í okkar valdi stendur til að tryggja börnum okkar bjarta framtíð. Atvinnulífið hefur smám saman orðið margbreytilegra á traustum grunni sjávarútvegs og iðnaðar, menningarlífið blómstrar og aðstaða til íþrótta og útiveru er prýðileg.
Þótt lífið sé þannig að mörgu leyti gott í bænum okkar við Pollinn þá megum við ekki sofna á verðinum og betur má ef duga skal.
Með það í huga býð ég mig fram til forystu í prófkjöri sjálfstæðisflokksins 8. febrúar nk. og skora á lesendur að veita mér brautargengi til að axla þá ábyrgð sem ég sækist eftir.
Undanfarna áratugi hef ég unnið ýmis ábyrgðarstörf hér við Eyjafjörð, nú síðast sem yfirmaður skóladeildar og fræðslustjóri Akureyrar í 15 ár. Skólamálin í bænum eru gríðarlega viðamikill þáttur með um 850 starfsmenn og 4.000 nemendur í skólum bæjarins. Ég leyfi mér að vona að ég hafi sýnt hvað í mér býr við stjórn þessa málaflokks.
Menntun barnanna okkar er mér því hugleikin en einnig önnur velferðarmál í nútímasamfélagi, svo sem umönnun aldraðra og ekki síst sú framtíðarsýn að hér sé öflugt atvinnulíf sem tryggir að öllum sé gert kleift að sjá sér og sínum farborða. Styrkja þarf fyrirtækin í bænum með ýmis konar þjónustu, liðka fyrir samskiptum við ríkisvaldið og stuðla að aukinni uppbyggingu á öllum sviðum.
Ferðaiðnaðurinn er einnig vaxandi þáttur í atvinnulífi bæjarins, þáttur sem síst skyldi vanmeta, enda hefur fjöldi ferðamanna og þar með velta fjármuna í bæjarfélaginu af ferðamennsku margfaldast á síðustu árum.
Háskólann okkar þarf einnig að efla og stöðu sveitarfélagsins sem miðstöð norðurslóðasamstarfs.
Kjósum til forystu traust fólk með ríka ábyrgðarkennd og reynslu. Okkur er ætlað að standa vörð um framtíð barnanna okkar, tryggja þeim sem og öðrum bæjarbúum enn betra líf í góðum bæ. Framtíðin er okkar.
Gunnar Gíslason.
Höfundur sækist eftir 1. sæti í prófjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri.