Framsóknarmenn vilja taka atvinnumál föstum tökum

Framsóknarmenn á Akureyri vilja taka atvinnumálin föstum tökum, samhliða því að standa vörð um þá atvinnustarfsemi sem fyrir er. Þeir vilja færa atvinnumál frá Akureyrarstofu og aftur undir atvinnumálanefnd og ráða verkefnisstjóra í atvinnumálin. Framsóknarmenn vilja láta gera úttekt á því hvaða áhrif innganga Íslands í ESB annars vegar og svokölluð fyrningarleið í sjávarútvegi hins vegar hafi á Akureyri og nágrannasveitarfélög.  

Framsóknarmenn vilja stofna embætti umboðsmanns Akureyrar sem hafi það hlutverk að vinna að því að koma verkefnum á vegum ríkisins norður og standa vörð um slík störf sem fyrir eru. Þá vilja framsóknarmenn ráða bæjarstjóra til starfa - bæjarstjóra sem standi utan við pólitíkina og búi yfir menntun og reynslu til að vinna með þeim að því að snúa vörn í sókn. Þetta er á meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi sem frambjóðendur Framsóknarflokksins boðuðu til í dag, þar sem stefnuskrá flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 29. maí var kynnt. Yfirskrift hennar er; Framsókn fyrir betri bæ.

Guðmundur B. Guðmundsson oddviti flokksins sagði að mikil vinna lægi að baki stefnuskránni - vinna sem hófst strax að loknu prófkjöri í vetur. "Við höfum heimsótt fjölda stofnana, félagasamtaka og fyrirtækja og teljum að við séum að leggja hér fram stefnu sem í raun endurómar þær raddir sem heyrast í samfélaginu. Við höfum sett atvinnumálin í forgang og erum í raun eina framboðið sem er með raunhæfar tillögur í þeim efnum. Við leggjum til að atvinnumálanefnd verði klofin út frá Akureyrarstofu. Þar hafa verið gerðir margir ágætir hlutir en Akureyrarstofa hefur ekki náð að sinna atvinnumálunum sem skildi," sagði Guðmundur.

Hann sagði að verkefnistjóra væri ætlað það hlutverk að vinna að átaksverkefnum í atvinnumálum í samstarfi við Vinnumálastofnun, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og fleiri aðila. Jafnframt að hjálpa fyrirtækjum að nýta þau atvinnuúrræði sem Vinnumálastofnun er að bjóða upp á. "Við erum jafnframt á velferðarvaktinni, því teljum að atvinnumál séu velferðarmál. Þetta er stórt mál og það þarf að bregðast við með þessum hætti," sagði Guðmundur.

Framsóknarmenn vilja að Akureyrarbær komi að stofnun viðkiptaráðs sem yrði samstarfsvettvangur bæjarins og fyrirtækja í bænum um sameiginlega hagsmuni og atvinnuuppbyggingu. Þeir vilja standa vörð um og efla Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og auka samvinnu sveitarfélaga á Norðausturlandi um sameiginlega hagsmuni í atvinnuuppbyggingu.

Í félagsmálum vilja framsóknarmenn m.a. Akureyrarbær verði áfram í fremstu röð í félagsþjónustu, heilsugæslu og öldrunarmálum. Í skipulagsmálum vilja framsóknarmenn m.a. endurskoðun á því miðbæjarskipulagi sem núverandi meirahlutaflokkar hafa lagt fram. Jafnframt að endurskoðað skipulag sé byggt á raunhæfum markmiðum og kostnaðaráætlunum. Þeir vilja að óvissu um Dalsbraut verði eytt á kjörtímabilinu og ákvörðunin verði byggð á raunhæfum forsendum.

Í íþróttamálum vilja framsóknamenn m.a. hækka styrk til barnafólks vegna íþrótta-, tómstunda- og listiðkunar.  Í menningarmálum vilja framsóknarmenn að Akureyri verði í fararbroddi sem miðstöð menningar og lista á Íslandi.

Nýjast