Framsóknarmenn á Akureyri efna til prófkjörs

Á fundi fulltúaráðs Framsóknarfélaganna á Akureyri í gærkvöld, var samþykkt að viðhafa prófkjör við val í sex efstu sæti  á framboðslista Framsóknarflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2010. Rétt til þátttöku hafa félagar í Framsóknarfélögunum á Akureyri og aðrir stuðningsmenn Framsóknarflokksins í sveitarfélaginu.  

Eins og fram hefur komið ætlar Jóhannes Gunnar Bjarnason, eini bæjarfulltrúi flokksins á Akureyri, ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi setu í bæjarstjórn að loknu yfirstandandi kjörtímabili. Prófkjörið fer fram laugardaginn 23. janúar 2010 í Hólabraut 13 á Akureyri og einnig í Hrísey og Grímsey.  Starfandi kjörnefnd er falið að sjá um undirbúning og framkvæmd prófkjörsins.  Þá er nefndinni einnig falið að gera tillögu að uppröðun í önnur sæti listans og leggja hana fyrir fund í fulltrúaráði eigi síðar en 1. mars 2010.

Nýjast